Dagsloka­gengi ís­lenska málm­leitarfélagsins Amaroq var 164 krónur eftir tæp­lega 6% hækkun í 729 milljóna króna við­skiptum í dag.

Dagsloka­gengi félagsins hefur aldrei verið hærra en gengi félagsins hefur hækkað um 13,5% síðastliðinn mánuð og um tæp 37% á árinu.

Um miðjan nóvember­mánuð greindi Amaroq frá því að félagið hefði gert sölu­samning við Aura­met International en í samningnum skuld­bindur Aura­met sig til að kaupa allt gull sem félagið fram­leiðir í Nalunaq-gullnámunni í Suður-Græn­landi.

Sam­hliða því var til­kynnt að Amaroq hefði náð samningum við Meta­l­or Technologies SA, um að full­vinna gull­stangir félagsins en Meta­l­or sér­hæfir sig í mati og vinnslu góðmálma í vinnslu­stöð sinni sem stað­sett er í Zurich, Sviss.

Tæp­lega tveimur vikum síðar steypti félagið sinn fyrsta gull­mola en Amaroq fram­leiddi um 1,2 kílógramm af gulli (39 troy-únsur) úr Nalunaq-námunni.

Félagið stefnir á að auka fram­leiðslu upp í stöðug, full af­köst á 4. árs­fjórðungi 2025, þar sem unnin verða 260-300 tonn á dag af efni með áætluðum 12-16 g/t af gull­styrk­leika.

Hluta­bréfa­verð Símans hækkaði um 2,5% í 513 milljón króna við­skiptum í dag.

Dagsloka­gengi Símans var 13,75 krónur á hlut en gengi félagsins hefur nú hækkað um 41% á árinu.

Gengi Festi dalaði ör­lítið í við­skiptum dagsins og lækkaði um 2% í 619 milljón króna veltu en gengi félagsins hefur verið á miklu skriði síðustu mánuði.

Dagsloka­gengi Festi var 282 krónur sem er tæp­lega 40% hærra en í árs­byrjun.

Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,34% og var heildarvelta á markaði 5,2 milljarðar.