Hluta­bréfa­verð Amaroq Minerals hækkaði um tæp 14% í við­skiptum dagsins og hefur gengi málm­leitarfélagsins nú hækkað um 33% frá því að Trump frestaði tollum í síðustu viku.

Ama­oq, líkt og vaxtarfélögin Ocu­lis og Al­vot­ech, lækkuðu gríðar­lega eftir að Trump greindi frá tollaá­formum sínum í byrjun mánaðar.

Hluta­bréfa­verð Amaroq stóð í 115,5 krónum á hlut eftir lokun markaða á mið­viku­daginn í síðustu viku en dagsloka­gengið var 154 krónur í dag.

Gengi Ocu­lis, sem hækkaði ör­lítið í við­skiptum dagsins, hefur einnig tekið við sér á síðustu við­skipta­dögum og hækkað um 23% frá því að Trump frestaði tollum.

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech hefur einnig hækkað síðastliðna viku en ekki af sama viti og gengi hinna tveggja.

Gengi Al­vot­ech lækkaði um tæp 2% í við­skiptum dagsins og lokaði í 1.085 krónum. Gengið stóð í 1.000 krónum á hlut þegar Trump ákvað að fresta tollum sínum.

Hluta­bréfa­verð Haga hækkaði um tæp 4% í hálfs milljarðs króna við­skiptum en félagið birti stjórn­enda­upp­gjör eftir lokun markaða í gær.

Sam­kvæmt stjórn­enda­upp­gjöri Haga nam vöru­sala sam­stæðunnar 180,3 milljörðum króna á árinu og jókst um 4,1% frá fyrra ári.

Fram­legðin hækkaði í 22,8% og nam 41,1 milljarði króna. EBITDA-hagnaður ársins nam 14,7 milljörðum króna, sem er 8,2% af veltu, og hagnaður eftir skatta nam 7,0 milljörðum króna, sem jafn­gildir 3,9% af veltu.

Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,36% og lokaði í 2.473,23 stigum. Heildar­velta á markaði nam 1,9 milljörðum króna.