Hluta­bréfa­verð Eim­skips hækkaði um 6% í 539 milljón króna við­skiptum í dag og var dag­loka­gengi gáma­flutningafélagsins 418 krónur.

Dagsloka­gengið var síðast svo hátt í febrúar 2024 en tölu­verðar áskoranir hafa verið í gáma­flutningum síðastliðið ár.

Eim­skip byrjaði fyrsta fjórðung í fyrra á að færa af­komu­spá sína niður eftir snarpa lækkun á flutnings­verðum.

Hluta­bréfa­verð Eim­skips féll niður í 312 krónur um miðjan maí í fyrra en gengið hefur hækkað um 34% síðan þá.

Gengi Eim­skips byrjaði að taka við sér að nýju eftir árs­hluta­upp­gjör í nóvember en af­koma félagsins á þriðja árs­fjórðungi var sú sterkasta á árinu.

Tekjur félagsins jukust um 18,6 milljónir evra frá fyrra ári og námu 220,6 milljónum evra á fjórðungnum, sem sam­svarar um 33 milljörðum króna á gengi dagsins.

Hagnaður eftir skatta nam 14,3 milljónum evra saman­borið við 16,6 milljónir evra fyrir sama tíma­bil árið 2023.

Gengi Eim­skips fór upp í 400 krónur eftir upp­gjörið en hefur verið á bilinu 380 til 390 krónur síðan þá.

Hluta­bréfa­verð Iceland Sea­food International hækkaði fimmta við­skipta­daginn í röð og var dagsloka­gengi félagsins 5,3 krónur eftir 3% hækkun í við­skiptum dagsins.

Þá fór gengi Icelandair og Play hvort í sína áttina er gengi Icelandair lækkaði um rúm 3% í 170 milljón króna veltu á meðan gengi Play hækkaði um rúm 2% í ör­við­skiptum.

Úrvalsvísitalan OMXI 15 hækkaði um 0,21% og var heildarvelta á markaði 5,7 milljarðar.