Hluta­bréfa­verð fast­eigna­fé­laganna Kalda­lóns, Eikar, Reita og Heima hækkaði um 3-4% í yfir milljarða við­skiptum í dag.

Kalda­lón, sem fluttist yfir á Aðal­markaðinn í nóvember í fyrra, leiddi hækkanir í við­skiptum dagsins er gengi fé­lagsins hækkaði um 4% í 246 milljón króna við­skiptum.

Dagsloka­gengið var 16,85 krónur en fyrir skömmu óskaði fast­eigna­fé­lagið eftir því við hlut­hafa að flýta kaupum á eigin bréfum vegna þess að markaðs­virði fé­lagsins, að mati stjórnar, væri ekki í sam­ræmi við virði undir­liggjandi eigna.

Úr vaxtarfélagi í arðgreiðslufélag

Jón Þór Gunnars­son, for­stjóri Kalda­lóns, keypti 330 þúsund hluti í fé­laginu við opnun markaða en gengið í við­skiptunum var 16,35 og kaup­verðið því um 5,4 milljónir.

Hluta­bréf Kalda­lóns voru tekin til við­skipta á aðal­markaði Kaup­hallarinnar síðast­liðið haust eftir um fjögur ár á First North markaðinum.

Í sam­tali við Við­skipta­blaðið í nóvember í fyrra sagði Jón Þór að fé­lagið væri enn vaxtar­fé­lag en nú í vor yrði á­kveðið hve­nær Kalda­lón myndi skil­greina sig sem arð­greiðslu­fé­lag, með reglu­legum arð­greiðslum eða endur­kaupa­á­ætlunum.

„Fé­lagið er mjög vel fjár­magnað og með skulda­hlut­fall tals­vert undir saman­burðar­fé­lögum. Við getum enn þá vaxið með innri vexti en samt haldið þeim við­miðum í skulda­hlut­falli sem fé­lagið hefur sett,“ sagði Jón Þór.

Sveiflur á gengi Eikar

Hlutabréfaverð Eikar hefur sveiflast verulega síðastliðinn mánuð en dagslokagengið fór til að mynda úr 9,45 krónum í byrjun maí yfir í 10,6 krónur þann 23. maí sem samsvarar um 12% hækkun.

Degi síðar var gerður hátt í tveggja milljarða skipta­samningur (e. swap) á hluta­bréfum Eikar og bréfum annarra skráðra fé­laga í Kaup­höllinni. Um utan­þings­við­skipti er að ræða sem til­kynnt voru við opnun markaða og féll gengi Eikar um 5% þann 24. maí.

Gengi Eikar hefur síðan þá hækkað um tæp 9% síðan en gengið fór upp um 4% í við­skiptum dagsins.

Hluta­bréfa­verð Reita hækkaði um rúm 3% í yfir hálfs milljarðs við­skiptum í dag en fast­eigna­fé­lagið greindi frá 3,4 milljarða fast­eigna­kaupum eftir lokun markaða í gær.

Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu á­ætlar fast­eigna­fé­lagið að rekstrar­hagnaður hækki um 230 milljónir á árs­grund­velli eftir kaupin.

Reitir keyptu tvær fast­eignir með lang­tíma­leigu­samningum á höfuð­borgar­svæðinu fyrir rúm­lega 2,2 milljarða sam­hliða því að fé­lagið gekk frá kaupum á ÞEJ fast­eignum ehf. á rúm­lega 1,5 milljarða.

Hluta­bréfa­verð Heima hækkaði síðan um 3% í við­skiptum dagsins en gengi fé­lagsins hefur hækkað um 8% síðast­liðinn mánuð.

Rúmur mánuður er síðan Heimar, áður Reginn, dró yfir­töku­til­boð sitt í Eik til baka en Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, for­stjóri Heima, sagði í kjöl­farið í til­kynningu að fé­lagið myndi fara aðrar leiðir að sama marki.

Hann lofaði því að Heimar myndu vinna hratt í að byggja upp lang­tíma­stefnu fé­lagsins sem myndi fela í sér að selja eignir og endur­fjár­festa í fast­eignum innan skil­greindra kjarna, einkum í ný­byggingum.

„Þessi sam­runi er síður en svo eina sóknar­færið sem við höfum auga­stað á. Mark­mið okkar er að byggja upp til langs tíma og halda á­fram að styrkja kjarna­svæði Regins sem eiga inni mikil vaxta­tæki­færi. Það er ljóst að búið er að hrista upp í markaðnum og það eru á­huga­verðir tímar fram undan,“ sagði Hall­dór Benja­mín í lok apríl.