Hlutabréfaverð Haga hækkaði um 4% í um 600 milljóna viðskiptum dagsins en félagið birtir árshlutauppgjör þriðja ársfjórðungs eftir lokun markaða í dag.
Dagslokagengi Haga var 106 krónur en gengið hefur hækkað um 37% síðastliðið ár.
Gengi Festi hækkaði einnig í viðskiptum dagsins er gengi féalgsins fór upp um 3% í tæplega milljarða króna veltu.
Dagslokagengi Festi var 286 krónur eftir rúma 45% hækkun síðastliðið ár.
Þá fór gengi JBT Marel upp í 18 þúsund krónur á hlut eftir um 3% hækkun í viðskiptum dagsins.
Hlutabréfaverð Skaga leiddi lækkanir á aðalmarkaði er gengi félagsins fór niður um 2% í örviðskiptum. Dagslokagengi Skaga var 19,8 krónur sem er rúmlega 8% lægra en í byrjun árs.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 1,23% og stóð í 2.897 stigum við lokun markaða. Heildarvelta á markaði var 4,6 milljarðar.