Hlutabréf í fasteignafélaginu Heima hafa hækkað um 11% síðastliðna viðskiptaviku en töluverð velta hefur verið með bréf félagsins á tímabilinu.
Gengi Heima hækkaði um tæp 4% í viðskiptum dagsins í um 265 milljón króna veltu eftir um tveggja milljarða króna veltu í gær.
Í morgun var greint frá því að alþjóðlega sjóðastýringafélagið Redwheel, sem átti meðal annars í Íslandsbanka áður fyrr, hefði fjárfest í heimum í síðustu viku.
Í gær var síðan greint frá því að félag í eigu Baldvins Þorsteinssonar, forstjóri og eigandi Öldu Seafood, hefði fjárfest í Heimum fyrir rúmlega 1,8 milljarða í utanþingsviðskiptum um helgina.
Baldvin fjárfesti í Heimum gegnum fjárfestingafélag sitt Túnstein ehf. en hann á nú um 4% hlut í fasteignafélaginu eftir viðskiptin.
Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq hækkaði um rúm 3% í viðskiptum dagsins en gengi félagsins hefur verið á miklu skriði frá því að uppgjör annars ársfjórðungs birtist í síðustu viku.
Eldur Ólafsson, forstjóri og stofnandi Amaroq, sagði í uppgjörinu að áætlanir félagsins um að geta hafið gullframleiðslu á fjórða ársfjórðungi væru að ganga eftir.
Hlutabréf í Amaroq hafa hækkað um tæp 13% síðastliðna viku.
Hlutabréfaverð Haga leiddi lækkanir á markaði er gengi félagsins fór niður um 3% í rúmlega 260 milljón króna viðskiptum.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,25% en eftir heldur betur dræmt sumar hefur vísitalan hækkað um 4,72% síðastliðna viku.