Hluta­bréf í fast­eigna­fé­laginu Heima hafa hækkað um 11% síðast­liðna við­skipta­viku en tölu­verð velta hefur verið með bréf fé­lagsins á tíma­bilinu.

Gengi Heima hækkaði um tæp 4% í við­skiptum dagsins í um 265 milljón króna veltu eftir um tveggja milljarða króna veltu í gær.

Í morgun var greint frá því að al­þjóð­lega sjóða­stýringa­fé­lagið Redwheel, sem átti meðal annars í Ís­lands­banka áður fyrr, hefði fjár­fest í heimum í síðustu viku.

Í gær var síðan greint frá því að fé­lag í eigu Bald­vins Þor­steins­sonar, for­stjóri og eig­andi Öldu Sea­food, hefði fjár­fest í Heimum fyrir rúm­lega 1,8 milljarða í utan­þings­við­skiptum um helgina.

Bald­vin fjár­festi í Heimum gegnum fjár­festinga­fé­lag sitt Tún­stein ehf. en hann á nú um 4% hlut í fast­eigna­fé­laginu eftir við­skiptin.

Hluta­bréfa­verð málm­leitar­fé­lagsins Amaroq hækkaði um rúm 3% í við­skiptum dagsins en gengi fé­lagsins hefur verið á miklu skriði frá því að upp­gjör annars árs­fjórðungs birtist í síðustu viku.

Eldur Ólafs­son, for­stjóri og stofnandi Amaroq, sagði í upp­gjörinu að á­ætlanir fé­lagsins um að geta hafið gull­fram­leiðslu á fjórða árs­fjórðungi væru að ganga eftir.

Hluta­bréf í Amaroq hafa hækkað um tæp 13% síðast­liðna viku.

Hluta­bréfa­verð Haga leiddi lækkanir á markaði er gengi fé­lagsins fór niður um 3% í rúm­lega 260 milljón króna við­skiptum.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 hækkaði um 0,25% en eftir heldur betur dræmt sumar hefur vísi­talan hækkað um 4,72% síðast­liðna viku.