Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði mest í Kauphöllinni í dag eða um 5% í 355 milljón króna viðskiptum. En gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 13,6% á síðastliðnum mánuði.

Þá hækkuðu bréf Iceland Seafood næst mest í dag eða um 3,16% í 53 milljón króna viðskiptum en flöggun birtist í Kauphöllinni vegna viðskipta með bréf félagsins. Ástæða flöggunarinnar voru kaup Birtu Lífeyrissjóðs á bréfum félagsins en kaupin námu 3 milljónum hluta á verðinu 9,65 krónum á hlut og viðskiptin því að andvirði 29 milljónum króna. Eftir viðskiptin fer sjóðurinn með 5,1% hlut í félaginu en fyrir var hann með tæpan 5% hlut.

Heildarvelta á markaði nam 4,2 milljörðum króna. Mest voru viðskipti með bréf Kviku en þau námu 562 milljónum króna. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 0,5% í viðskiptum dagsins og hefur hækkað um 10,6% á síðastliðnum mánuði.

Þá hækkaði úrvalsvísitalan um 1,2%. Af 22 skráðum félögum voru 13 græn eftir viðskipti dagsins en sex rauð.

Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar lækkaði mest í viðskiptum dagsins eða um 0,95% í 79 milljón króna viðskiptum.