Hlutabréfaverð Icelandair stendur í 0,88 krónum eftir rúma 4% lækkun í dag en gengi flugfélagsins hefur lækkað um 60% síðastliðið ár. Lægsta dagslokagengi Icelandair er 0,87 krónur þann 5. október 2020.
Skömmu fyrir kórónuveirufaraldurinn stóð gengi flugfélagsins í 8,820 krónum og hefur gengið lækkað um 90% síðan þá.
Fyrir opnun markaðar í morgun greindi flugfélagið frá farþegatölum fyrir júní mánuð en félagið flutti 514 þúsund farþega í mánuðinum sem eru um 1% færri farþegar en í júní 2023.
„Farþegafjöldi okkar í júní var svipaður og í fyrra en eftirspurn eftir ferðum til landsins hefur minnkað, samanborið við síðasta ár. Nú sem fyrr höfum við nýtt sveigjanleikann í leiðakerfinu og lagt aukna áherslu á tengifarþega en um helmingur farþega okkar í júní eru tengifarþegar á leiðinni á milli Evrópu og Norður-Ameríku,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningunni.
Icelandair birti ársuppgjör í byrjun febrúar en félagið skilaði hagnaði í fyrra í fyrsta sinn í sex ár. Icelandair hagnaðist um 1,5 milljarða króna eftir skatta á árinu 2023, samanborið við 800 milljóna króna tap árið áður.
Gengi flugfélagsins féll um 7% í fyrstu viðskiptum eftir uppgjörið en þrátt fyrir ágætis lausafjárstöðu er félagið töluvert skuldsett.
Vaxtaberandi skuldir og leiguskuldbindingar félagsins samkvæmt ársreikningi námu alls 638,6 milljónum Bandaríkjadala sem samsvarar 87,4 milljörðum króna á gengi dagsins. Skuldir flugfélagsins jukust um 40,7 milljónir dala í fyrra sem var þó að mestu vegna flugvélatengdra fjárfestinga.
Eigið fé nam 288,3 milljónum dala í lok árs og var eiginfjárhlutfall Icelandair 19%.
Icelandair birti uppgjör fyrsta ársfjórðungs í miðjum aprílmánuði og greindi þar frá því að flugfélagið hefði tapað yfir 8 milljörðum króna eftir skatta á sama tíma og heildartekjur á fyrsta ársfjórðungi höfðu aldrei verið meiri í sögu félagsins.
Í lok apríl fór gengi Icelandair undir 1 krónu og þar með undir útboðsgengið í hlutafjárútboði Icelandair í september 2020 þar sem flugfélagið samþykkti boð upp á 30 milljarða króna.
Líkt og þekkt er var mikil þátttaka meðal almennings í umræddu útboði og margfaldaðist fjöldi hluthafa Icelandair að því loknu.