Hluta­bréfa­verð John Bean Technologies hækkaði um tæp 11% við opnun markaða í Banda­ríkjunum en fé­lagið birti árs­hluta­upp­gjör í gær.

Tekjur JBT námu 454 milljónum Banda­ríkja­dala á þriðja árs­fjórðungi sem sam­svarar um 63 milljörðum króna á gengi dagsins.

Um er að ræða um 12% tekju­aukningu frá þriðja árs­fjórðungi 2023 en hagnaður fyrir fjár­magns­liði og af­skriftir (EBITDA) jókst um 23% og nam 82 milljónum dala.

Fram­legðar­hlut­fall JBT nam 18% á fjórðungnum saman­borið við 16,4% á sama tíma­bili árið 2023. Nýjar mót­teknar pantanir námu 440 milljónum dala sem er um 10% aukning frá sama fjórðungi í fyrra.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá var gildis­tíma yfir­töku­til­boðs JBT til hlut­hafa Marels fram­lengt til 11. nóvember en til­boðið er háð 90% sam­þykki hlut­hafa.

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú einnig gefið út að stofnunin er tilbúin að taka við formlegri tilkynningu vegna samruna félaganna tveggja og því ætti að vera hægt að klára viðskiptin fyrir árslok.

„Við erum á­nægð með reksturinn á þriðja árs­fjórðungi sem skilar met­tekjum, met- EDITDA fram­legð,“ segir Brian Deck, for­stjóri JBT í uppgjörinu en á­ætlað er að hann verði for­stjóri hins sam­einaða fé­lags gangi yfir­takan eftir.

Líkt og áður hefur komið fram bjóðast hlut­höfum 3,60 evrur á hvern hlut. Hlut­hafar geta valið milli þess að fá:

  1. Að fá greiddar 3,60 evrur í reiðu­fé.
  2. Að fá af­henta 0,0265 hluti í JBT og 1,26 evrur í reiðu­fé.
  3. Fá af­henta 0,0407 hluti í JBT.

Miðað er við við­miðunar­gengi á hvern hlut í JBT upp á 96,25 Banda­ríkja­dali og er fast skipti­gengi evru og krónu 149,5.

Hlutabréfaverð JBT stendur í 105 dölum um þessar mundir og stendur gengi Marel í 554 krónum um þessar mundir eftir um 6% hækkun í 2,1 milljarðs króna viðskiputm í dag.

Rétt er að taka fram að að­eins 950 milljónir evra skiptast á milli allra þeirra hlut­hafa sem óska eftir því að fá reiðu­fé.

Eftir að því hefur verið skipt niður pro rata á þá hlut­hafa sem eftir því óska, verður toppað upp með hluta­bréfum í JBT.

Vegið meðal­tal fulls endur­gjalds JBT fyrir allt hluta­fé í Marel verður því sam­sett af 35% í formi reiðu­fjár og 65% í formi af­hentra hluta­bréfa í JBT.

Sam­kvæmt skráningar­lýsingu John Bean Technologies (JBT) í tengslum við yfir­töku­til­boð fé­lagsins í allt hluta­fé Marels segir að JBT telji að heildar­kostnaður við yfir­tökuna verði í kringum 1,9 milljarðar evra, sem sam­svarar um 283 milljörðum króna á gengi dagsins.

Wells Far­go og Gold­man Sachs eru að að­stoða JBT við fjár­mögnun og hafa bankarnir tveir veitt JBT 1,3 milljarða evra lána­línu til að ganga frá kaupunum. Í yfir­liti yfir á­hættu­þætti sem hlut­hafar JBT og Marel eru beðnir um að hafa í huga í tengslum við kaupin er farið ítar­lega yfir skuld­setningu fé­laganna tveggja og sam­einaða fé­lagsins, verði yfir­takan sam­þykkt.

Sam­kvæmt gögnunum er á­ætlað að skuld­setning JBT aukist um 1,5 milljarða evra, eða um 225 milljarða króna, til að fjár­magna kaupin.

Árni Sigurðs­son, for­stjóri Mar­les, sagði í sam­tali við Við­skipta­blaðið í vor að hið sam­einaða fé­lag yrði ekki lengi að lækka skuld­setninguna.

„Það sem JBT hefur sagt er að ef við miðum við að þetta sé að klárast í lok árs er á­ætlað að nettó vaxta­berandi skuldir sem marg­feldi af EBITDA verði undir 3,5x miðað við nú­verandi plön, sem gætu auð­vitað breyst með ytra um­hverfinu, en svo ætti sam­einað fé­lag að vera mjög sterkt með gott sjóð­streymis­módel til að lækka skuld­setninguna eins fljótt og auðið er með það að mark­miði að koma skulda­hlut­falli undir þrjá árið 2025,“ sagði Árni.