Hlutabréfaverð John Bean Technologies hækkaði um tæp 11% við opnun markaða í Bandaríkjunum en félagið birti árshlutauppgjör í gær.
Tekjur JBT námu 454 milljónum Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi sem samsvarar um 63 milljörðum króna á gengi dagsins.
Um er að ræða um 12% tekjuaukningu frá þriðja ársfjórðungi 2023 en hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) jókst um 23% og nam 82 milljónum dala.
Framlegðarhlutfall JBT nam 18% á fjórðungnum samanborið við 16,4% á sama tímabili árið 2023. Nýjar mótteknar pantanir námu 440 milljónum dala sem er um 10% aukning frá sama fjórðungi í fyrra.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá var gildistíma yfirtökutilboðs JBT til hluthafa Marels framlengt til 11. nóvember en tilboðið er háð 90% samþykki hluthafa.
Framkvæmdastjórn ESB hefur nú einnig gefið út að stofnunin er tilbúin að taka við formlegri tilkynningu vegna samruna félaganna tveggja og því ætti að vera hægt að klára viðskiptin fyrir árslok.
„Við erum ánægð með reksturinn á þriðja ársfjórðungi sem skilar mettekjum, met- EDITDA framlegð,“ segir Brian Deck, forstjóri JBT í uppgjörinu en áætlað er að hann verði forstjóri hins sameinaða félags gangi yfirtakan eftir.
Líkt og áður hefur komið fram bjóðast hluthöfum 3,60 evrur á hvern hlut. Hluthafar geta valið milli þess að fá:
- Að fá greiddar 3,60 evrur í reiðufé.
- Að fá afhenta 0,0265 hluti í JBT og 1,26 evrur í reiðufé.
- Fá afhenta 0,0407 hluti í JBT.
Miðað er við viðmiðunargengi á hvern hlut í JBT upp á 96,25 Bandaríkjadali og er fast skiptigengi evru og krónu 149,5.
Hlutabréfaverð JBT stendur í 105 dölum um þessar mundir og stendur gengi Marel í 554 krónum um þessar mundir eftir um 6% hækkun í 2,1 milljarðs króna viðskiputm í dag.
Rétt er að taka fram að aðeins 950 milljónir evra skiptast á milli allra þeirra hluthafa sem óska eftir því að fá reiðufé.
Eftir að því hefur verið skipt niður pro rata á þá hluthafa sem eftir því óska, verður toppað upp með hlutabréfum í JBT.
Vegið meðaltal fulls endurgjalds JBT fyrir allt hlutafé í Marel verður því samsett af 35% í formi reiðufjár og 65% í formi afhentra hlutabréfa í JBT.
Samkvæmt skráningarlýsingu John Bean Technologies (JBT) í tengslum við yfirtökutilboð félagsins í allt hlutafé Marels segir að JBT telji að heildarkostnaður við yfirtökuna verði í kringum 1,9 milljarðar evra, sem samsvarar um 283 milljörðum króna á gengi dagsins.
Wells Fargo og Goldman Sachs eru að aðstoða JBT við fjármögnun og hafa bankarnir tveir veitt JBT 1,3 milljarða evra lánalínu til að ganga frá kaupunum. Í yfirliti yfir áhættuþætti sem hluthafar JBT og Marel eru beðnir um að hafa í huga í tengslum við kaupin er farið ítarlega yfir skuldsetningu félaganna tveggja og sameinaða félagsins, verði yfirtakan samþykkt.
Samkvæmt gögnunum er áætlað að skuldsetning JBT aukist um 1,5 milljarða evra, eða um 225 milljarða króna, til að fjármagna kaupin.
Árni Sigurðsson, forstjóri Marles, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í vor að hið sameinaða félag yrði ekki lengi að lækka skuldsetninguna.
„Það sem JBT hefur sagt er að ef við miðum við að þetta sé að klárast í lok árs er áætlað að nettó vaxtaberandi skuldir sem margfeldi af EBITDA verði undir 3,5x miðað við núverandi plön, sem gætu auðvitað breyst með ytra umhverfinu, en svo ætti sameinað félag að vera mjög sterkt með gott sjóðstreymismódel til að lækka skuldsetninguna eins fljótt og auðið er með það að markmiði að koma skuldahlutfalli undir þrjá árið 2025,“ sagði Árni.