Hlutabréfaverð líftæknilyfjafyrirtækisins Oculis, sem sérhæfir sig í augnsjúkdómum, hefur hækkað um 14% á fimm viðskiptadögum í októbermánuði.
Gengi félagsins hækkaði um 9% í um 451 milljón króna viðskiptum í dag.
Dagslokagengi Oculis var 1.870 krónur og hefur gengið ekki verið hærra síðan Oculis var skráð á aðalmarkað í lok apríl.
Félagið fór samhliða skráningu í 59 milljóna dala hlutafjáraukningu, sem samsvaraði 8,2 milljörðum íslenskra króna.
Útboðsgengið var 11,75 dalir og var dagslokagengið eftir fyrsta viðskiptadag 1,690 krónur.
Von á niðurstöðum og FDA leyfi
Oculis var stofnað af Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum, og Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði, fyrir tuttugu árum. Tækni Oculis byggir á nanóögnum, gerðum úr sýklódextrín-sameindum, sem nýttar eru til að auka leysanleika augnlyfja og gefa lengri virkni.
Samkvæmt þeim markaðsaðilum sem Viðskiptablaðið ræddi við í dag vegna gengishækkunar Oculis var engin ein útskýring sem var talin bera ábyrgð á hækkunum félagsins síðustu daga.
Oculis fundaði með Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) til undirbúnings umsóknar um markaðsleyfi á OCS-01, gefnu einu sinni á dag til meðferðar við bólgu og verkjum eftir augnaðgerðir, í ágúst. Samkvæmt félaginu veitti fundurinn skýra leið að umsókn um markaðsleyfi á fyrsta ársfjórðungi 2025.
Í árshlutauppgjöri annars ársfjórðungs var greint frá því að félagið hefði lokið við fasa 2 ACUITY-rannsóknina á OCS-05 til meðhöndlunar á sjóntaugabólgu.
Líftæknilyfjafélagið áætlar að birta fyrstu niðurstöður á fjórða ársfjórðungi 2024 en vonir eru bundnar við að OCS-05 geti hjálpað til við meðhöndlun á hrörnun eða rýrnun taugavefs í auga.
Líftæknilyfjafélagið birtir árshlutauppgjör þriðja ársfjórðungs eftir rúman mánuð.
Gengi Play tekur stökk í örviðskiptum
Hlutabréfaverð flugfélagsins Play leiddi hækkanir á aðalmarkaði er gengi félagsins fór upp um rúm 12% í örviðskiptum. Dagslokagengi Play var 2 krónur.
Gengi Icelandair hækkaði um rúm 4% í 230 milljón króna viðskiptum og var dagslokagengið 1,17 krónur.
Flugfélögin birtu farþegatölur eftir lokun markaða í dag.
Gengi Amaroq ekki hærra síðan í mars
Hlutabréfaverð Amaroq hækkaði síðan um rúm 7% en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun stækkaði Eldur Ólafsson, stofnandi og forstjóri Amaroq, hlut sinn í félaginu fyrir helgi.
Eldur keypti 300 þúsund hluti í félaginu síðastliðinn föstudag en samkvæmt kauphallartilkynningu á Eldur núna rúmlega 9,5 milljón hluti í félaginu sem samsvarar um 2,9% eignarhlut.
Markaðsvirði eignarhlutar Elds, miðað við dagslokagengi föstudagsins, er 1,2 milljarðar króna.
Dagslokagengi Amaroq var 140 krónur og hefur gengið ekki verið hærra síðan í mars.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 2,18% og var heildarvelta á markaði 3,8 milljarðar.