Hlutabréfaverð líftæknilyfjafyrirtækisins Oculis, sem sérhæfir sig í augnsjúkdómum, hefur hækkað um tæplega 8% í 1,6 milljarða viðskiptum í morgun.
Gengi félagsins stendur í 3120 krónum þegar þetta er skrifað sem er um 31% hærra en í byrjun árs.
Markaðsvirði Oculis í lok árs í fyrra nam 110,53 milljörðum króna en sé tekið mið af núverandi gengi er markaðsvirði félagsins tæplega 145 milljarðar. Markaðsvirðið hefur því aukist um 35 milljarða á örfáum viðskiptadögum á nýju ári.
Oculis fór á aðalmarkað íslensku kauphallarinnar í lok apríl á þessu ári og var dagslokagengið 1.690 krónur eftir fyrsta viðskiptadag en gengið hefur hækkað um rúmlega 84% síðan þá.
Fjárfestar virðast vera að binda vonir við jákvæðar niðurstöður frá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) við umsókn um markaðsleyfi fyrir OCS-1 en forsvarsmenn Oculis funduðu með eftirlitinu í ágúst í fyrra en samkvæmt uppgjöri verður sótt um markaðsleyfi á fyrsta ársfjórðungi í ár.
Um er að ræða augndropa til meðferðar við bólgu og verkjum eftir augnaðgerðir en droparnir eru sagðir byltingarkenndir og er Oculis með einkaleyfi á framleiðslu þeirra til ársins 2040.
Verðmöt erlendra greiningarfyrirtækja sem birt voru undir lok síðasta árs gera ráð fyrir að hlutabréfaverð Oculis geti náð allt að 62,5 dölum samþykki FDA umsókn félagsins en það samsvarar um 8800 krónum á hlut.
Í byrjun janúar greindi félagið einnig frá jákvæðum niðurstöðum (e. topline results) fyrir OCS-05 í fasa 2 ACUITY-rannsókninni, sem uppfyllti aðalviðmið um öryggi og afleidd lykilviðmið um virkni.
Í tilkynningu Oculis til Kauphallarinnar kom fram að umsókn félagsins fyrir nýtt þróunarlyf (e. Investigational New Drug (IND) application) vegna OCS-05 hefði verið samþykkt af bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu, sem gerir kleift að hefja klínískar rannsóknir í Bandaríkjunum, sem hluta af alþjóðlegri þróunaráætlun.
Oculis segir að OCS-05 hafi verið skilgreint sem lyf sem þróað er til þess að meðhöndla sjaldgæfa sjúkdóma (e. orphan drug) fyrir sjóntaugabólgu af bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu (FDA) og lyfjastofnun Evrópu (EMA).
Sjóntaugabólga sé sjaldgæfur sjúkdómur sem lýsir sér í bráðri bólgu í sjóntaug og afmýlun (e. demyelination) sjóntaugarinnar, og komi oft fram hjá ungu fullorðnu fólki þar sem sjónhimnuþynning tengist beint tapi á sjón og varanlegri sjónskerðingu.