Hluta­bréfa­verð líftækni­lyfja­fyrir­tækisins Ocu­lis, sem sér­hæfir sig í augn­sjúk­dómum, hefur hækkað um tæp­lega 8% í 1,6 milljarða við­skiptum í morgun.
Gengi félagsins stendur í 3120 krónum þegar þetta er skrifað sem er um 31% hærra en í byrjun árs.

Markaðsvirði Ocu­lis í lok árs í fyrra nam 110,53 milljörðum króna en sé tekið mið af núverandi gengi er markaðsvirði félagsins tæp­lega 145 milljarðar. Markaðsvirðið hefur því aukist um 35 milljarða á örfáum við­skipta­dögum á nýju ári.

Ocu­lis fór á aðal­markað ís­lensku kaup­hallarinnar í lok apríl á þessu ári og var dagsloka­gengið 1.690 krónur eftir fyrsta við­skipta­dag en gengið hefur hækkað um rúmlega 84% síðan þá.

Fjár­festar virðast vera að binda vonir við jákvæðar niður­stöður frá Mat­væla- og lyfja­eftir­liti Bandaríkjanna (FDA) við um­sókn um markaðs­leyfi fyrir OCS-1 en for­svars­menn Ocu­lis funduðu með eftir­litinu í ágúst í fyrra en sam­kvæmt upp­gjöri verður sótt um markaðs­leyfi á fyrsta árs­fjórðungi í ár.

Um er að ræða augn­dropa til með­ferðar við bólgu og verkjum eftir augnað­gerðir en droparnir eru sagðir byltingar­kenndir og er Ocu­lis með einka­leyfi á fram­leiðslu þeirra til ársins 2040.

Verðmöt er­lendra greiningar­fyrir­tækja sem birt voru undir lok síðasta árs gera ráð fyrir að hluta­bréfa­verð Ocu­lis geti náð allt að 62,5 dölum samþykki FDA um­sókn félagsins en það sam­svarar um 8800 krónum á hlut.

Í byrjun janúar greindi félagið einnig frá jákvæðum niður­stöðum (e. top­line results) fyrir OCS-05 í fasa 2 ACUITY-rannsókninni, sem upp­fyllti aðal­viðmið um öryggi og af­leidd lykil­viðmið um virkni.

Í til­kynningu Ocu­lis til Kaup­hallarinnar kom fram að um­sókn félagsins fyrir nýtt þróunar­lyf (e. Investigational New Drug (IND) app­li­cation) vegna OCS-05 hefði verið samþykkt af bandaríska mat­væla- og lyfja­eftir­litinu, sem gerir kleift að hefja klínískar rannsóknir í Bandaríkjunum, sem hluta af alþjóð­legri þróunaráætlun.

Ocu­lis segir að OCS-05 hafi verið skil­greint sem lyf sem þróað er til þess að meðhöndla sjald­gæfa sjúk­dóma (e. orp­han drug) fyrir sjóntauga­bólgu af bandaríska mat­væla- og lyfja­eftir­litinu (FDA) og lyfja­stofnun Evrópu (EMA).

Sjóntauga­bólga sé sjald­gæfur sjúk­dómur sem lýsir sér í bráðri bólgu í sjóntaug og af­mýlun (e. demyelination) sjón­taugarinnar, og komi oft fram hjá ungu full­orðnu fólki þar sem sjón­himnuþynning tengist beint tapi á sjón og varan­legri sjónskerðingu.