Gengi Ölgerðarinnar hefur lækkað um rúm 4% í fyrstu viðskiptum eftir að félagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í gær.
Gengið stendur í 16,1 krónu og hefur ekki verið lægra síðan um miðjan janúar. Á sama tíma hafa Hagar og Festi verið að lækka í fyrstu viðskiptum en fyrrnefnda félagið birtir uppgjör í næstu viku.
Í árshlutauppgjöri Ölgerðarinnar kom fram að hagnaður félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins nam 1,4 milljörðum króna sem er lækkun úr 2,2 milljörðum á milli ára.
Í fyrra voru tekjufærðar 386 milljóna króna einskiptistekjur vegna hækkunar á hlut Ölgerðarinnar í Iceland Spring sem er nú orðið dótturfélag. Hlutdeildartekjur lækkuðu því um 372 milljónir á fyrstu sex mánuðum fjárhagsársins í ár sem 1. mars 2024 – 31. ágúst 2024.
Á tímabilinu jókst vörusala um 0,6% og framlegð hækkaði um 1,1% miðað við sama tímabil í fyrra.
EBITDA félagsins nam 2,7 milljörðum króna á fyrri árshelmingi samanborið við 3,09 milljarða í fyrra sem jafngildir um 12% lækkun á milli ára.
Ölgerðin ákvað í kjölfarið að lækka afkomuspá félagsins fyrir árið úr 5,1 til 5,5 milljörðum í 4,9 til 5,3 milljarða. Samkvæmt uppfærðri spá eru horfur á minni umsvifum á seinni hluta fjárhagsársins.
„Ársfjórðungurinn litast af breyttum ytri aðstæðum sem skýrist aðallega af minni neyslu erlendra ferðamanna og Íslendinga almennt. Samdráttur var í seldum lítrum til hótela, veitingastaða og skyndibitastaða. Vel hefur gengið að halda aftur af ýmsum kostnaðarþáttum á ársfjórðungnum og stóð sölu- og markaðskostnaður og annar rekstrarkostnaður nokkurn veginn í stað milli ára þrátt fyrir að um það bil 80 milljónum hafi verið varið í markaðsstarf vegna Collab á erlendum mörkuðum,“ segir í uppgjöri Ölgerðarinnar.
Gengistap á ársfjórðungnum jókst um 114 milljónir króna á milli ára sem er vegna áhrifa veikingar krónunnar á móti evru á viðskiptaskuldir samstæðunnar.
Hlutdeildartekjur lækkuðu um 2 milljónir og hrein vaxtagjöld um 79 milljónir milli tímabila sem Ölgerðin segir stafa bæði af lægri skuldsetningu en á sama tímabili í fyrra og einnig hagstæðari fjármögnunarkjörum á víxlamarkaði.
Eignir félagsins námu tæplega 32 milljörðum króna í lok tímabilsins og hækkuðu um 1,2 milljarða frá árslokum 2023. Eigið fé jókst um 250 milljónir og nam 15,3 milljörðum. Eiginfjárhlutfall lækkaði um 1,2% og nam 47,9%.