Hluta­bréfa­verð Play hefur hækkað um 11% í rúm­lega 30 milljóna króna við­skiptum það sem af er degi.

Gengi félagsins stendur í 1,22 krónum þegar þetta er skrifað en dagsloka­gengi Play var síðast svo hátt í október í fyrra.

Flug­félagið undir­ritaði sam­starfs­samning við Odin Car­go um frakt­flutninga í gær, en með samningnum kemur Odin Car­go ehf. inn sem sölu- og þjónustu­aðili á frakt flug­félagsins.

Með sam­starfinu verður þjónusta og flutninga­leiðir í flug­frakt aukin í bæði inn- og út­flutningi, þar sem leiðar­kerfi Play og þjónustu­net Odin Car­go, ásamt sam­starfsaðilum um allan heim, er tengt saman.

Í byrjun vikunnar greindi flug­félagið frá betri sætanýtingu í desem­ber­mánuði en sætanýting flug­félagsins var 78,9% saman­borið við 76,2% á sama tíma í fyrra.

Flug­félagið flutti 98.863 farþega í desember 2024, borið saman við 114.265 farþega í desember árið 2023 sem sam­svarar 13,5% sam­drætti milli ára.

Í október­mánuði greindi Play frá „grund­vallar­breytingu“ á við­skiptalíkaninu félagsins með aukna áherslu á sólar­landaá­fangastaði frá Ís­landi og minni áherslu á tengi­flug milli Norður-Ameríku og Evrópu.

Í til­kynningu Play á þriðju­daginn sagði flug­félagið að hlutur sólar­landaá­fangastaða í leiða­kerfi félagsins hafi aukist úr 16% í desember árið 2023 upp í 22% í desember árið 2024.