Hlutabréfaverð Play hefur hækkað um 11% í rúmlega 30 milljóna króna viðskiptum það sem af er degi.
Gengi félagsins stendur í 1,22 krónum þegar þetta er skrifað en dagslokagengi Play var síðast svo hátt í október í fyrra.
Flugfélagið undirritaði samstarfssamning við Odin Cargo um fraktflutninga í gær, en með samningnum kemur Odin Cargo ehf. inn sem sölu- og þjónustuaðili á frakt flugfélagsins.
Með samstarfinu verður þjónusta og flutningaleiðir í flugfrakt aukin í bæði inn- og útflutningi, þar sem leiðarkerfi Play og þjónustunet Odin Cargo, ásamt samstarfsaðilum um allan heim, er tengt saman.
Í byrjun vikunnar greindi flugfélagið frá betri sætanýtingu í desembermánuði en sætanýting flugfélagsins var 78,9% samanborið við 76,2% á sama tíma í fyrra.
Flugfélagið flutti 98.863 farþega í desember 2024, borið saman við 114.265 farþega í desember árið 2023 sem samsvarar 13,5% samdrætti milli ára.
Í októbermánuði greindi Play frá „grundvallarbreytingu“ á viðskiptalíkaninu félagsins með aukna áherslu á sólarlandaáfangastaði frá Íslandi og minni áherslu á tengiflug milli Norður-Ameríku og Evrópu.
Í tilkynningu Play á þriðjudaginn sagði flugfélagið að hlutur sólarlandaáfangastaða í leiðakerfi félagsins hafi aukist úr 16% í desember árið 2023 upp í 22% í desember árið 2024.