Hluta­bréfa­verð Play lækkaði um rúm 28% í við­skiptum dagsins og hefur gengi flug­fé­lagsins nú lækkað um rúm 81% frá árs­byrjun 2024.

Eftir lokun markaða í gær greindi Play frá grund­vallar­breytingum á við­skipta­líkani flug­fé­lagsins en fé­lagið hyggst stór­efla þjónustu til sólar­landa­á­fanga­staða frá Ís­landi en draga tölu­vert úr um­svifum tengi­flugs á milli Norður-Ameríku og Evrópu.

Þá greindi Play frá því að til stæði að sækja um flug­rekstrar­leyfi á Möltu.

Sam­hliða þessu til­kynnti fé­lagið um að upp­færð af­komu­á­ætlun gæfi vís­bendingar um að rekstrar­af­koma fé­lagsins verði verri en á síðasta ári, ó­líkt því sem spáð hafði verið fyrir um. Fé­lagið telur þó ekki þörf á auknu fjár­magni til rekstrarins á næstunni.

Einungis 12 milljón króna velta var með bréf Play í dag og urðu stærstu ein­stöku við­skiptin skömmu eftir opnun markaða með milljón hluti á genginu 1,6 krónur.

Dagsloka­gengi Play var 1,38 krónur og hefur aldrei verið lægra.

Hluta­bréfa­verð Haga leiddi hækkanir á aðal­markaði er gengi fé­lagsins fór upp um tæp 2% í 147 milljón króna við­skiptum.

Hluta­bréf málm­leitar­fé­lagsins Amaroq hækkaði um tæpt 1,5% í 71 milljón króna við­skiptum en heims­markaðs­verð á gulli fór aftur í sögu­lega hæð í dag.

Únsan af gulli stendur í 2627,3 dölum þegar þetta er skrifað en Eldur Ólafs­son, stofnandi og for­stjóri málm­leitar­fé­lagsins, hefur gefið það út að til standi að hefja gull­fram­leiðslu fyrir árs­lok.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 fór niður um 0,02% í við­skiptum dagsins og var heildar­velta á markaði 4,1 milljarður.