Hluta­bréfa­verð flug­fé­lagsins Play hefur lækkað um 15% í við­skiptum dagsins. Um 11 milljón króna velta hefur verið með bréf Play það sem af er degi og stendur gengið í 0,8 krónum.

Gengið hefur nú lækkað um 59% síðast­liðinn mánuð og tæp­lega 90% það sem af er ári.

Play birti árs­hluta­reikning þriðja árs­fjórðungs eftir lokun markaða í gær en fé­lagið hagnaðist um 500 milljónir króna á fjórðungnum sem er um þriðjungs­lækkun milli ára.

Lausa­fjár­staða fé­lagsins var 39,8 milljónir banda­ríkja­dala við lok árs­fjórðungsins og hefur því aukist um 0,6 milljónir banda­ríkja­dala á milli ára.

Einar Örn Ólafs­son, for­stjóri Play, sagði á fjár­festa­fundi í gær að lausa­fjár­staða fé­lagsins væri betri en í fyrra en fram undan eru miklar breytingar á við­skipta­líkani flug­fé­lagsins.

Breytingin felur í sér að á­fanga­stöðum í Norður-Ameríku og Norður-Evrópu verður fækkað frá og með miðju næsta ári.

Á hinn bóginn verður á­ætlun fé­lagsins til Suður-Evrópu efld. Í til­kynningu flug­fé­lagsins er bent á að bein flug til á­fanga­staða fé­lagsins í Suður-Evrópu hafi verið arð­bær frá upp­hafi.

Með­fram nýju við­skipta­líkani hefur Play hafið um­sóknar­ferli um flug­rekstrar­leyfi á Möltu til að greiða fyrir fjöl­breyttari starf­semi á vegum fé­lagsins. Reiknar fé­lagið með því að nýja flug­rekstrar­leyfið verði í höfn næsta vor.

Þannig er stefnt að því að fyrsta vél Play sem færð verður yfir á nýtt flug­rekstrar­leyfi verði stað­sett á Tenerife og muni þaðan meðal annars fljúga til Kefla­víkur og Akur­eyrar.