Hluta­bréfa­verð Sýnar lækkaði um rúm 2,5% í ör­við­skiptum í dag og var dagsloka­gengið 29,4 krónur.

Dagsloka­gengi Sýnar hefur ekki verið lægra í tæp fimm ár en hluta­bréfa­verð félagsins hefur lækkað um tæp 9% það sem af er ári og 39% síðastliðið ár.

Von er á árs­upp­gjöri frá Sýn þann 20. febrúar en fjar­skipta- og fjölmiðla­fyrir­tækið Sýn hagnaðist um 17 milljónir króna eftir skatta á þriðja árs­fjórðungi, saman­borið við 321 milljóna hagnað á sama tíma­bili í fyrra.

Af­koma félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins var neikvæð um 322 milljónir króna eftir skatta.

Út­gerðarfélögin Brim, Síldar­vinnslan og Ís­félagið lækkuðu einnig í við­skiptum dagsins en vonir um loðnu­vertíð hafa farið dvínandi á síðustu dögum.

Haf­rannsókna­stofnun hyggst senda rannsókna­skipið Árna Friðriks­son út í nýjan loðnu­leiðangur öðru hvoru megin við næstu helgi.

„Við vitum ekki nákvæm­lega hvenær verður farið, hvort það verður fyrir eða eftir helgi. Það er háð veðri og slíku,“ segir Guð­mundur Óskars­son, sviðs­stjóri upp­sjávar­sviðs Haf­rannsókna­stofnunar, í sam­tali við Fiskifréttir Við­skipta­blaðsins.

Að sögn Guð­mundar er Árna Friðriks­syni ætlaðir allt að fimmtán dagar í þennan leiðangur. Eins og staðan sé núna fari Árni einn í leitina. Mögu­lega bætist þó við skip frá út­gerðinni.

Guðmundur segir að sjónum verði fyrst og fremst beint að norðvestur­svæðinu í þessari yfir­ferð ef það skyldi dúkka upp ein­hver vestur­ganga, til að geta náð utan um hana og mælt hana.

Gengi Brims lækkaði um 1,5%, gengi Síldar­vinnslunnar um 1,85% og gengi Ís­félagsins um 0,8%. Hluta­bréfa­verð Hampiðjunnar lækkaði einnig um rúm 2% og þá fór gengi Iceland Sea­food International einnig niður um tæp 2%.

Hluta­bréfa­verð fast­eignafélagsins Eikar leiddi hækkanir á aðal­markaði er gengi félagsins fór upp um 1,5%. Dagsloka­gengi Eikar var 13,7 krónur.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 lækkaði um 0,99% og var heildar­velta á markaði 4,2 milljarðar.