Hlutabréfaverð Sýnar lækkaði um rúm 2,5% í örviðskiptum í dag og var dagslokagengið 29,4 krónur.
Dagslokagengi Sýnar hefur ekki verið lægra í tæp fimm ár en hlutabréfaverð félagsins hefur lækkað um tæp 9% það sem af er ári og 39% síðastliðið ár.
Von er á ársuppgjöri frá Sýn þann 20. febrúar en fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn hagnaðist um 17 milljónir króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 321 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra.
Afkoma félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins var neikvæð um 322 milljónir króna eftir skatta.
Útgerðarfélögin Brim, Síldarvinnslan og Ísfélagið lækkuðu einnig í viðskiptum dagsins en vonir um loðnuvertíð hafa farið dvínandi á síðustu dögum.
Hafrannsóknastofnun hyggst senda rannsóknaskipið Árna Friðriksson út í nýjan loðnuleiðangur öðru hvoru megin við næstu helgi.
„Við vitum ekki nákvæmlega hvenær verður farið, hvort það verður fyrir eða eftir helgi. Það er háð veðri og slíku,“ segir Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, í samtali við Fiskifréttir Viðskiptablaðsins.
Að sögn Guðmundar er Árna Friðrikssyni ætlaðir allt að fimmtán dagar í þennan leiðangur. Eins og staðan sé núna fari Árni einn í leitina. Mögulega bætist þó við skip frá útgerðinni.
Guðmundur segir að sjónum verði fyrst og fremst beint að norðvestursvæðinu í þessari yfirferð ef það skyldi dúkka upp einhver vesturganga, til að geta náð utan um hana og mælt hana.
Gengi Brims lækkaði um 1,5%, gengi Síldarvinnslunnar um 1,85% og gengi Ísfélagsins um 0,8%. Hlutabréfaverð Hampiðjunnar lækkaði einnig um rúm 2% og þá fór gengi Iceland Seafood International einnig niður um tæp 2%.
Hlutabréfaverð fasteignafélagsins Eikar leiddi hækkanir á aðalmarkaði er gengi félagsins fór upp um 1,5%. Dagslokagengi Eikar var 13,7 krónur.
Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 0,99% og var heildarvelta á markaði 4,2 milljarðar.