Hlutabréf í Novo Nordisk hafa lækkað umtalsvert frá miðju ári 2024. Nú telja margir reynslumiklir fjárfestar sem fylgja aðferðum Warren Buffetts að sjá kauptækifæri samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Börsen.

Hlutabréfaverð danska lyfjafyrirtækisins hefur lækkað um 54 prósent á tæpu ári, og það hefur vakið athygli fjárfesta sem leita að undirverðlögðum en traustum félögum til langtímafjárfestinga.

Peter Gustafson, eigandi og framkvæmdastjóri Prospect Family Office, keypti nýverið í Novo Nordisk í fyrsta sinn í 14 ár. Hann steig inn á markaðinn þegar hlutabréfaverðið fór niður í 390 danskar krónur í lok apríl.

„Novo er fyrirtæki í heimsklassa, með framúrskarandi arðsemi og reyndan stjórnendahóp. Þegar hlutabréfið fór niður fyrir 400 danskar uppfyllti það fjárfestingarskilyrði Warren Buffetts líkt og margir fjárfestar í Omaha,“ segir Gustafson, sem nýkominn er frá aðalfundi Berkshire Hathaway í Bandaríkjunum.

Hann bætir við að margir fjárfestar sem hann hitti í Omaha hafi nýverið hafið kaup á bréfum í félaginu.

Sjálfur metur hann að kaup á núverandi verðlagi geti skilað árlegri ávöxtun upp á 15 prósent næstu tíu árin. Ef keypt er við hærra verð, um 450–500 danskar krónur, telur hann ávöxtunaráhrifin þó nær 12–13 prósentum á ári.

Verðlækkunin á hlutabréfunum hefur að miklu leyti verið rakin til vaxandi samkeppni við bandaríska lyfjaframleiðandann Eli Lilly, einkum á sviði offitulyfja. Þessi þróun hefur þrýst á verðmat Novo Nordisk, þrátt fyrir verulegan vöxt í sölu lyfja á borð við Wegovy.

Ef V/H hlutfall Novo Nordisk er skoðað er það nú aðeins 17,15 miðað við áætlaðar tekjur fyrir árið 2025, samkvæmt gögnum frá Bloomberg.

Þetta er lægsta hlutfall félagsins frá árinu 2018. Til samanburðar stendur V/H hlutfall Eli Lilly í 37,7.

„Við teljum að hlutabréfaverðið í Novo sé nú orðið mjög aðlaðandi. Markaðurinn virðist að mestu aðeins verðleggja tekjur af insúlínvörum, en ekki þeim miklu möguleikum sem felast í offitulyfjunum. Þetta hefur leitt okkur til að auka við eignarhlut okkar,“ segir Lone Kjærgaard, forstjóri fjárfestingafélagsins Investering & Tryghed.

Ýmsir greiningaraðilar hafa á undanförnum mánuðum lækkað markgengi Novo Nordisk.

Til að mynda lækkaði Barclays-bankinn nýverið markgengi sitt úr 900 dönskum krónurm í 700 danskar krónur og bendir á að möguleikarnir á stuttum hækkunum séu takmarkaðir miðað við núverandi hvata.

Aftur á móti benda margir á að fram undan séu mikilvægar rannsóknarniðurstöður sem geti haft afgerandi áhrif á verðmat félagsins:

Í júní verða birt gögn um megrunarlyfið Cagrisema, arftaka Wegovy, sem margir setja vonir sínar á.

Seinni hluta ársins 2025 verða kynnt gögn úr fasa 3 rannsóknum á semaglutide (virka efninu í Wegovy) gegn Alzheimer-sjúkdómi sem gætu reynst afgerandi fyrir framtíðartekjur.

Meðalmarkgengi samkvæmt greiningum Bloomberg stendur nú í 665 danskar krónur, sem gefur til kynna mögulegan hækkunarmun upp á um 45 prósent frá núverandi verðlagi.