Hlutabréfaverð Tesla og Trump Media & Technology hefur hækkað verulega í framvirkum samningum eftir að forsetakosningarnar í nótt.
Eins og staðan er núna verður gengi Tesla um 14% hærra við opnun markaða á eftir á meðan gengi Trump Media & Technology, móðurfélags samfélagsmiðilsins Truth Social, mun opna 41% hærra.
Framvirkir samningar tengdir S&P 500 vísitölunni hafa hækkað um 1,8% og Dow Jones um 2%.
Fjárfestar hafa verið að losa sig við ríkisskuldabréf og er ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til tíu ára komin yfir 4,4% en krafan stóð í 4,29% fyrir kosningar. Þegar ávöxtunarkrafan hækkar lækkar virði bréfanna.
Þá hefur Bandaríkjadalur verið að styrkjast og hefur WSJ Dollar vísitalan, sem mælir gengi dals gegn 16 gjaldmiðlum, hækkað um 1,5%.
Þá hefur gengi Bitcoin hækkað um 9% í nótt en gengi rafmyntarinnar hefur aðeins gengið til baka síðan þá.