Hlutafé Icelandic Water Holdings hf. (IWH), sem er með vatnsframleiðslu á Hlíðarenda í Ölfusi undir merkjum Icelandic Glacial, var aukið um 98 milljónir dala, eða um 13,5 milljarða króna, árið 2023 bæði með skuldbreytingu á kröfum í hlutafé og auknu fjármagni.
Hópur fjárfesta, með milligöngu fjárfestingarsjóðs í Lichtenstein, Icelandic Star Property Ltd., fjárfesti í Icelandic Water Holdings (IWH) fyrir ríflega 10 milljarða króna og eignaðist með því meirihluta í félaginu.
Þegar tilkynnt var um ofangreind viðskipti í september 2023 kom fram að umræddur fjárfestahópur hefði aukið verulega við eigið fé félagsins. Samhliða hafi aðrir hluthafar, m.a. sjóðir í stýringu BlackRock og feðgarnir Jón Ólafsson og Kristján Jónsson, keypt hluti í félaginu með skuldbreytingu lána og viðbótarfjárfestingu.
Í nýbirtum ársreikningi fyrir árið 2023 kemur fram að Iceland Star Property hafi í júní 2023 samþykkt að fjárfesta í IWH fyrir 74,3 milljónir dala eða ríflega 10 milljarða króna.
Umrædd fjárfesting hafi verið framkvæmd í tveimur lotum, annars vegar með upphaflegri fjárfestingu upp á 56,2 milljónir dala í ágúst 2023 - þar sem fjárfestahópurinn eignaðist 53% hlut í félaginu – og viðbótarfjárfestingu upp á 18,1 milljón dala sem fól í sér að gefið verði út nýtt hlutafé til Iceland Star Property. Í skýrslu stjórnar kemur fram að seinni greiðslan hafi þegar verið innt af hendi en áætlað væri að uppgjör viðskiptanna færi fram í september eða október síðastliðnum.
Ekki liggur fyrir hvaða fjárfestar standa að baki nýjum meirihlutaeiganda. Johan Dennelind, stjórnarformaður IWH, sagði í viðtali við Morgunblaðið í september 2023 að um væri að ræða fjárfesta af ýmsum þjóðernum, m.a. frá Kanada, Hong Kong og Singapúr. Hann tók þó fram að enginn þeirra ætti meira en 20% hlut. RÚV fjallaði í janúar um eignarhald Iceland Star Property.
IWH hafði áður verið í stærstri eigu Jóns Ólafssonar og tengdra aðila. Í árslok 2023 áttu félög tengd Jóni, Baraka Investments og Pacific Water and Drinks, samtals 9,4% af almennu hlutafé í IWH. Þá átti KP ehf., félag Birkis Kristinssonar, 9,3% af almennu hlutafé IWH í árslok 2023.
Jón og Kristján sitja í níu manna stjórn IWH. Við fjárhagslegu endurskipulagninguna árið 2023 var tilkynnt um að Jón myndi starfa áfram sem sendiherra vörumerkisins á heimsmarkaði.
Bandaríski sjóðastýringarrisinn BlackRock eignaðist 23% hlut af almennu hlutafé IWH sumarið 2023 gegn eftirgjöf skulda upp á nærri fjóra milljarða, líkt og Innherji greindi frá á sínum tíma.
Langtímalán IWH námu 23,3 milljónum dala, eða um 3,2 milljörðum króna, í árslok 2023 samanborið við 65,6 milljónum dala ári áður.
2,2 milljarða tap árið 2023
Icelandic Water Holdings tapaði 16 milljónum dala árið 2023, eða sem nemur um 2,2 milljörðum króna. Til samanburðar var tap félagsins 22,5 milljónir dala árið 2022.
Rekstrartekjur IWH námu 48,1 milljónum dala, eða um 6,6 milljörðum króna, og jukust um 22% frá fyrra ári. Fram kemur að söluvöxtur í Bandaríkjunum hafi verið um 17% en á öðrum markaðssvæðum jókst salan um 71%, einkum vegna aukinnar sölu í Kanada og Íslandi.
Félagið áætlaði 30% tekjuvöxt á árinu 2024, einkum vegna markmiða um aukinn vöxt í Bandaríkjunum og Bretlandi auk þess að félagið hóf sölu í Hong Kong.
Rekstrartap (EBIT) nam 12,4 milljónum dala árið 2023 samanborið við 12,8 milljónir dala árið áður.
Eignir IWH voru bókfærðar á 127 milljónir dala í árslok 2023, eða um 17 milljarða króna. Eigið fé nam 81,1 milljón dala eða um 11 milljörðum króna í árslok 2023 en ári áður var eigið fé félagsins lítillega neikvætt.