Alvotech, íslenska líftæknifyrirtækið, vinnur nú að útgáfu á nýju hlutafé að fjárhæð hundrað milljónir dala, eða um 13 milljarða króna. Félagið stefnir að því að ljúka útboðinu nú í sumar. Frá þessu greinir Fréttablaðið.
Ef miðað er við gengið í útboðinu er markaðsvirði félagsins um 1,5 milljarðar Bandaríkjadala sem gerir um 200 milljarða íslenskra króna. Þeir fjárfestar sem munu taka þátt eignast því um 7% hlut í félaginu.
Eins og Viðskiptablaðið hafði greint frá segjast forsvarsmenn félagsins einkum horfa til kauphalla í Hong Kong eða New York.
Fjárfestingabankarnir Morgan Stanley, Goldman Sachs og HSBC voru fengnir sem ráðgjafar til að annast hlutafjáraukninguna en hún er ætluð að styðja við rekstur félagsins fram að áformaðri skráningu.
Alvotech var rekið með um 140 milljóna dala tapi í fyrra, borið saman við 133 milljónir dala á árinu 2018. Tekjur Alvotech jukust mikið á síðasta ári og námu samtals 78 milljónum dala, en á sama tíma hækkaði launa- og fjármögnunarkostnaður verulega. Eigið fé var neikvætt um 374 milljónir dala í árslok 2019 en heildarskuldir félagsins, sem eru einkum lántökur, námu liðlega 712 milljónum dala.
Samtals eru átta líftæknilyf í þróun hjá Alvotech um þessar mundir en um 460 vísindamenn og sérfræðingar starfa hjá félaginu.