Útgerðarfyrirtækið Ísfélagið mun hefja almennt hlutafjárútboð kl. 10 á morgun í aðdraganda skráningar á aðalmarkað Kauphallarinnar í desember. Útboðið mun standa yfir til kl. 14 þann 1. desember næstkomandi og gert er ráð fyrir er að hlutabréf Ísfélagsins verði tekin til viðskipta í Kauphöllinni þann 8. desember.
Tilkynnt var um útboðið í kvöld. Nálgast má fjárfestakynningu félagsins vegna útboðsins hér og skráningarlýsingu hér.
Ísfélagið, sem varð til með samruna Ísfélags Vestmannaeyja og Ramma, verður metið á tæplega 110 milljarða króna í útboðinu.
14,5% hlutur til sölu
Boðnir verða til sölu 118.923.851 þegar útgefnir hlutir í félaginu, sem jafngildir 14,53% af heildarhlutafé félagsins. Almenna útboðið skiptist í tvær áskriftarbækur.
Í áskriftarbók A – fyrir tilboð frá 100 þúsund krónum upp í 20 milljónir króna – verða 23.784.770 hlutir, samtals um 2,9% eignarhlutur, boðnir til sölu á föstu verði 135 krónur á hlut. Horft er til þess að skerða ekki áskriftir upp að 500 þúsund krónum.
Í tilboðsbók B, fyrir tilboð yfir 20 milljónum króna, verða 95.139.081 hlutir, eða um 11,6% eignarhlutur, boðnir til sölu á lágmarksverði 135 krónur á hlut.
„Skráning Ísfélags á Aðalmarkað hefur það að markmiði að efla grundvöll fyrir frekari vöxt fyrirtækisins. Við teljum að fjölbreyttari hópur fjárfesta styrki framtíðarsýn og rekstur félagsins til lengri tíma. Saman getum við sótt fram og nýtt fjölmörg tækifæri sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins.
„Fjölbreytt og góð samsetning á aflaheimildum mun auka stöðugleika í veiðum og vinnslu og ábata í rekstri. Traust fjárhagsstaða Ísfélags skapar svigrúm til sóknar og styður við spennandi tækifæri í dóttur- og hlutdeildarfélögum.“
Íslandsbanki, Arion Banki og Landsbankinn eru umsjónaraðilar útboðsins og töku hluta Ísfélags til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland í kjölfar útboðsins.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum markar skráning Ísfélagsins ákveðin þáttaskil. Með henni verður tæplega fjórðungur af úthlutuðum aflaheimildum í eigu skráðra almenningshlutafélaga. Leita þarf aftur til ársins 2004 til þess að finna sambærilega hlutdeild.
Sé miðað við úthlutun þorskígilda þá er Ísfélagið þriðja stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins.
Ísfélagið er elsta starfandi hlutafélag landsins. Félagið sérhæfir sig í veiðum og vinnslu gæðaafurða úr uppsjávar- og bolfiski.