Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi átti um 4% óbeinan hlut í þremur fyrirtækjum sem Síminn keypti í byrjun árs fyrir tæplega 5 milljarða króna. Áætla má að hlutdeild Höllu í söluverðinu sé í kringum 200 milljónir króna.

Halla á 50% hlut í félaginu Sunnunesi ehf. á móti Jóni Björnssyni, fyrrverandi forstjóra Origo. Halla er jafnframt skráður stjórnarformaður félagsins en Jón er framkvæmdastjóri þess og fer fyrir félaginu.

Ekkert skipt sér af fjárfestingum Sunnuness

Sunnunes, sem er skuldlaust, var með 240 milljónir króna í eigið fé í árslok 2022, samkvæmt síðasta birta ársreikningi félagsins. Félagið hagnaðist um 53,8 milljónir króna árið 2022 samanborið við 2,2 milljóna hagnað árið áður.

Í samtali við Viðskiptablaðið segist Halla vera með stóran hluta af persónulegum sparnaði sínum bundinn í Sunnunesi sem var stofnað árið 2014. Hún fjárfesti í félaginu í kjölfar ‏þess að hún seldi hlut sinn í Auði Capital, fjármálafyrirtæki sem hún stofnaði árið 2007 ásamt Kristínu Pétursdóttur. Halla bætir við að hún hafi aldrei fengið greiddan arð frá félaginu.

Sunnunes hefur einkum hafa staðið í litlum fjárfestingum í óskráðum félögum að sögn Höllu. Halla áréttar að Jón stýri Sunnunesi og fjárfestingum þess og að aðkoma hennar að rekstri félagsins sé engin.

„Hann hefur tekið allar ákvarðanir og stýrt öllu þar, af því að ég er bara búinn að vera í öðru - að reyna að breyta heiminum. Þannig að ég hef ekkert verið að skipta mér af þessu.“

Halla hefur síðastliðin sex ár starfað sem forstjóri B Team þar sem hún hefur unnið á heimsvísu að sjálfbærni, jafnrétti og ábyrgð í forystu, að því er segir í kosningasíðu hennar. B Team vinni með fyrirtækjastjórnendum og stjórnmálaleiðtogum að bættu siðferði. Einnig séu lagðar ríkar áherslur á réttlát og gagnsæ viðskipti og efnahag.

Á söluhliðinni í stórri sölu til Símans

Samkvæmt Creditinfo á Sunnunes 25% hlut í Var ehf. Síðarnefnda félagið átti 34% hlut í fyrirtækjunum BBI ehf., Dengsa ehf. og Billboard ehf., sem starfa öll á auglýsingamarkaði. Miðað við þessar upplýsingar átti Halla um 4,3% óbeinan hlut í fyrirtækjunum þremur.

Endanlegir eigendur Var ehf. samkvæmt Creditinfo. Halla Tómasdóttir á 12,5% óbeinan hlut í Var í gegnum helmingshlut sinn í Sunnunesi ehf.

Í janúar síðastliðnum tilkynnti Síminn um kaup á BBI, Dengsa og Billboard. Heildarvirði (e. enterprise value) fyrirtækjanna þriggja samkvæmt kaupsamningi nam 5.150 milljónum króna.

Endanlegt kaupverð, sem Síminn greiddi í lok mars samkvæmt kauphallartilkynningu, nam 3.714 milljónum króna í peningum ásamt því að seljendur fengu afhenta 101.153.146 hluti í Símanum sem eru í dag um 970 milljónir króna að markaðsvirði.

Miðað við ofangreindar forsendur má ætla að hlutdeild Höllu Tómasdóttur í endanlegu söluverði hafi verið í kringum 200 milljónir króna, að meðtöldu markaðsvirði hlutafjár í Símanum sem fylgdi með sölunni.

Um auglýsingafyrirtækin þrjú

BBI ehf. sérhæfir sig í fjárfestingum og rekstri auglýsingainnviða ásamt sölu margvíslegs búnaðar til þriðja aðila. Félagið selur og leigir út vörur tengdar stafrænum auglýsingaskjám, auglýsingaskilti, auglýsingastanda, næðisrými og annan búnað til viðskiptavina utan neytendamarkaðar.

Dengsi ehf. er samstarfsaðili sveitarfélaga um rekstur biðskýla fyrir strætisvagna. Félagið er með samninga við ýmis sveitarfélög allt frá Borgarnesi til Reykjanesbæjar. Félagið rekur um 350 biðskýli í viðkomandi sveitarfélögum ásamt 50 auglýsingastöndum.

Billboard ehf. sérhæfir sig í stafrænni umbreytingu flettiskilta. Félagið er með samninga um rúmlega 50 auglýsingafleti á stórum skiltum sem eru yfir 12 fermetrar að stærð.