Þegar frumvarp um hlutdeildarlánakerfið var fyrst lagt fram árið 2020 skiluðu fjölmargir aðilar inn umsögn en gagnrýni, sem kom til að mynda frá Viðskiptaráði og Samtökum atvinnulífsins, sneri meðal annars að því að ákvæði frumvarpsins væru óskýr og heimildir ráðherra til að gera breytingar væru of rúmar. Einnig gætu ákveðin skilyrði unnið gegn því markmiði að hjálpa tekjulágum og leitt til þess að stuðningurinn myndi renna til þeirra sem þurfi ekki á honum að halda. Þá var bent á að reynsla af sambæru úrræði erlendis væri ekki ýkja góð.

Takmörkuð reynsla er komin hér á landi af úrræðinu, ekki síst í ljósi þess að það dró verulega úr lánveitingum eftir árið 2021. Reynslan erlendis sýnir þó að úrræðið gæti reynst illa auk þess sem fleiri viðvörunarmerki eru á lofti að sögn Gunnars Úlfarssonar, hagfræðings Viðskiptaráðs.

„Viðskiptaráð telur að markmið með hlutdeildarlánum séu í sjálfu sér góð en teljum jafnframt að stjórnvöld leggja gjarnan of mikla áherslu á eftirspurnarhliðina í stað þess að styðja við framboðshliðina.“

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Stjórnvöld hafi beitt fjölda úrræða á húsnæðismarkaði á undanförnum árum og áratugum sem ætlað var að auðvelda fasteignakaup. Um hafi verið að ræða úrræði sem kostuðu háar fjárhæðir en árangurinn ekki verið betri en raun ber vitni.

„Það skýtur skökku við að á sama tíma og ekki er búist við því að dragi úr eftirspurn á húsnæðismarkaði á næstu árum skulu stjórnvöld boða aðgerðir sem örva eftirspurnina, en samtímis boða lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis.

Í þessu tilfelli örvar ein aðgerðin eftirspurnarhliðina en hin dregur úr framboði og leggst á kostnaðarhlið íbúðauppbyggingar. Það ætti eðli málsins samkvæmt að stuðla að hærra húsnæðisverði en ella.“

Nánar er fjallað um hlutdeildarlánakerfið í Viðskiptablaðinu sem kom út á föstudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.