HMS veitti alls 642 hlutdeildarlán á árunum 2020-2022, samkvæmt samantekt sem stofnunin birti í dag. Umsóknir voru 1.086 talsins á þessu tímabili og hlutfall samþykktra umsókna var því 59%.

Umsóknum fækkaði úr 627 í 146 á milli áranna 2021 og 2022. Alls voru 67 hlutdeildarlán samþykkt í fyrra samanborið við 371 árið 2021. Gera má ráð fyrir að færri íbúðir hafi uppfyllt skilyrði um lánin vegna íbúðaverðshækkana og forsenda um verðmörk.

Hlutdeildarlánin ná til fyrstu kaupenda og fólks sem hefur ekki átt fasteign í fimm ár en umsækjendur þurfa að vera undir tilteknum tekjumörkum. Lánað er allt að 30% fyrir útborgun en lántakendur þurfa að reiða fram a.m.k. 5% kaupverðs sjálfir. Opnað var fyrir umsóknir um hlutdeildarlán í fyrsta skipti í nóvember árið 2020.

Samtals 2020 2021 2022
Samþykkt 642 204 371 67
Synjað 154 34 96 24
Hætt við/gögn vantar 290 75 160 55
Samtals 1086 313 627 146

HMS segir að samtals hafi 452 fjölskyldur fengið aðstoð við að kaupa sitt fyrsta heimili í gegnum hlutdeildarlán. Þær telja 618 fullorðna einstaklinga og 212 börn.

Heildarkaupverð umræddra 452 fasteigna nemur tæplega 18 milljörðum króna og þar af hafa verið veitt hlutdeildarlán fyrir 3,7 milljarða króna. Að meðaltali þá nemur hlutdeildarlánið um 21% af kaupverði eignanna.

Nú þegar hafi 12 hlutdeildarlán verið greidd upp af 452 og er uppgreiðslufjárhæð þeirra um 27 milljónum króna hærri en upphafleg lánsfjárhæð, að meðaltali 2,3 milljónir á hvert lán.