Marel og Íslandsbanki hafa uppfært sameiginlegar skuldbindingar sínar með nýjum markmiðum um sjálfbærniviðleitni fyrir árið 2030. Þar á meðal vilja fyrirtækin draga úr launamun kynjanna og tryggja að hlutfall eins kyns fari ekki yfir 60% í efstu þremur stjórnunarstigum fyrirtækjanna.

Frá árinu 2018 hafa Marel, Íslandsbanki, Telenor, Yara, Posten, Storebrand, SAS, Swedbank og GSMA tekið höndum saman um sameiginleg sjálfbærnimarkmið á vettvangi Samtaka norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð (e. Nordic CEOs for a Sustainable Future).

Forstjórar þessa níu norrænu fyrirtækja hafa nú bætt við ný markmið sem felast meðal annars í sér að bjóða upp á fjögurra mánaða fullgreitt fæðingarorlof og að samþætta markmið um umhverfis-, félags- og stjórnarhætti (ESG) í árangursmat stjórnenda.

„Náin samvinna milli einkageirans og hins opinbera er nauðsynleg til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna“

Erna Solberg fyrrverandi forsætisráðherra Noregs var viðstödd þegar samtökin voru sett á laggirnar árið 2018 og síðan þá hafa forstjórarnir átt náin samskipti um sjálfbæra þróun við norrænu forsætisráðherrana. Árið 2019 gáfu samtök forstjóranna og forsætisráðherrarnir allra Norðurlandanna út sameiginlega yfirlýsingu um samstarf atvinnulífsins og hins opinbera um loftslagsmál og jafnrétti kynjanna.

„Náin samvinna milli einkageirans og hins opinbera er nauðsynleg til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Norðurlöndin eru einstaklega vel í stakk búin til að leiða og knýja fram þá byltingu sem verðum að gangast undir á næstu sjö árum,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.

Forstjórarnir vilja einnig stofna hópa undir forystu starfsmanna fyrir minnihlutahópa til að stuðla að fjölbreyttu og innihaldsríku vinnuumhverfi.

„Hjá Íslandsbanka erum við ákveðin í að vera hreyfiafl góðra verka í íslensku efnahagslífi. Þess vegna reynum við að ganga á undan með góðu fordæmi í sjálfbærnimálum. Þátttaka í Samtökum norrænna forstjóra um sjálfbæra framtíð gerir okkur kleift að vera leiðandi og hvetur okkur til enn markvissari aðgerða á vegferðinni til aukinnar sjálfbærni,“ segir Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanki.