Nýjar þjóðhagsspár greiningaraðila gefa tilefni til bjartsýni um að vextir muni fara lækkandi að mati Brynjars Arnar Ólafssonar hagfræðings. Þetta megi til dæmis merkja af því að yfirfæra spár þeirra í verðlagningu skuldabréfa sem gefi til kynna að ávöxtunkrafa lengri óverðtryggðra ríkisskuldabréfa ætti að vera rúmlega 100 punktum lægri en það sem markaðsaðilar eru nú að verðleggja bréfin á. Aftur á móti fari það áfram svo að markaðsaðilar hafi veikar væntingar um að Seðlabankanum takist að halda aftur af verðbólgu megi gera ráð fyrir að hlutfall verðs á móti hagnaði haldist nokkuð óbreytt.

Í aðsendri grein Brynjars um eignaverð, sem birtist fyrr í mánuðinum í Viðskiptablaðinu, kom fram að arðsemiskrafa til hlutabréfa um mitt þetta ár var 4% ef miðað sé við hagsveifluleiðréttan hagnað þeirra hlutafélaga sem mynda Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar (OMXI15) og fast að 5% ef miðað sé við hagnað félaganna síðastliðna tólf mánuði. Sambærileg arðsemiskrafa til fasteigna sé um 5% og hafi haldist nálægt því frá og með árinu 2017 samhliða fimmtungshækkun leigutekna að raunvirði.

Á meðfylgjandi mynd, sem birtist fyrst með aðsendu greininni, má sjá hlutfall virðis hlutabréfa OMXI15 á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði, virði fasteigna á móti leiguhagnaði og ávöxtunarkröfu til 5 ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa (OMXI5YNI) samkvæmt KODIAK. Gögnin ná aftur 30 ár og sýna hvernig þróun verðlagningar reyndist á tímum uppsveiflu og niðursveiflu hagkerfisins (skyggðu svæðin). Því hærri sem hlutföllin eru fyrir hlutabréf og fasteignir því lengri tíma tekur það fjárfesti að endurheimta upphaflegt virði fjárfestingar sinnar, m.ö.o. arðsemiskrafan er lægri miðað við hagnað.

Dræm viðbrögð lýsandi fyrir ástandið á markaði

Spurður um hvernig hann reikni með að eignaverð þróist á næstu mánuðum og inn í næsta ár kveðst Brynjar reikna með að á meðan það sé Seðlabankanum í vil að hafa slík áhrif á væntingar aðila hagkerfisins að vextir haldist háir til lengdar megi gera ráð fyrir að hlutfall verðs á móti hagnaði haldist nokkuð óbreytt.

„Meðaltal 5 ára óverðtryggðrar ávöxtunarkröfu frá árinu 1995 er 7,1% eða nærri því sem hún er í dag. Ágætt er að muna að á sama tíma var verðbólga um 4,5% en hún var 4,2% í júní. Háir vextir virka líkt og þyngdarafl fyrir eignamarkaði þar sem dregur úr afli fjárfesta til að stunda framvirk viðskipti sökum mikils vaxtakostnaðar auk þess sem það verður freistandi að halda fjármunum kyrrum fyrir á öruggum vaxtaberandi bankareikningum eða eignum til skamms tíma. Svipaða sögu má segja um vaxtakostnað fyrirtækja sem hefur hækkað miðað við rekstrarhagnað líkt og fjallað hefur verið um í Viðskiptablaðinu.“

Það sé til dæmis áhugavert hversu dræm viðbrögð markaðsaðila hafi verið við tilkynningu Arion banka og Kviku 6. júlí síðastliðinn um mögulegan samruna og tilvonandi verð. Í kjölfarið lækkaði verð á hlutabréfum þeirra niður fyrir tilkynnt skiptaverð, sem mögulega lýsi ástandinu á markaði.

„Þegar svona er um að litast er nytsamlegt að geta horft til samanburðar milli verðs eignamarkaða og yfir tíma. Er verðlagning hlutabréfa eðlileg í dag samanborið við hagnað? En vexti? En verð á öðrum mörkuðum? Verð á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði (CAPE) hefur það markmið, og eins staðan er í dag er hlutfallið um 23 eða nálægt langtímameðaltali (21) sem aftur gefur tilefni til að ætla að markaðir hafi ekki of óraunhæfar hugmyndir um verðlagningu hagnaðar með hliðsjón af núverandi ávöxtunarkröfu eða 7,2%.“

Hlusta vel á og greina stefnu peningastefnunefndar

Í fyrrnefndri grein fer Brynjar yfir að verðlagning markaðsaðila á hlutabréfum hafi farið lækkandi frá árinu 2021 sem skýrist af lækkun virðis félaga í OMXI15 og endurspeglast í að vísitalan hefur lækkað um 11,4% að raunvirði á tímabilinu á meðan hagnaður jókst um liðlega fimmtung að raunvirði. „Lesandi þekkir að verðmatslíkön (stöðustærð) og lán til hlutabréfakaupa (flæðistærð) miðast við ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa, og að hún hefur hækkað úr 3,94% þann 30. desember 2021 í 7,24% síðastliðinn 7. júlí. Líkt og sést á myndinni hefur vaxtastig haft áhrif á verðlagningu eigna. Fjárfestar dvelja til lengri tíma en einnar nætur þegar ljóst er að 7% áhættulítil ávöxtunarkrafa stendur til boða samanborið við lægri kröfu til áhættumeiri hlutabréfa,“ segir í grein Brynjars.

Vextir séu grunnurinn að verðlagningu í hagkerfinu. Í kjölfar þess að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafi hækkað meginvexti bankans 14 sinnum úr 0,75% í maí 2021 í 9,25% í ágúst 2023 hafi nefndin loks hafið lækkunarferli sitt í október síðastliðnum og séu þeir nú 7,5%. Í sínum nýjustu þjóðhagsspám spái greiningardeildir Arion banka og Íslandsbanka nánast sömu þróun meginvaxta næstu ár og að þeir verði að jafnaði 5,3% árið 2027. Yfirfæra megi vaxtaspár þessara aðila í 5,85% ávöxtunarkröfu til 5 ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa. Aftur á móti sé ávöxtunarkrafa markaðsaðila mun hærri eða 7,24%.

„Fari svo að verðlagning taki meira mið af ávöxtunarkröfu markaðsaðila og væntingum þeirra um hærra vaxtastig má fastlega gera ráð fyrir að arðsemiskrafa fari hækkandi og hlutfall virðis á móti hagnaði lækkandi. Slík þróun bendir aftur á móti til að það styttist í tækifæri á þeim mörkuðum,“ segir í grein Brynjars.

Beðinn um að útskýra nánar í hverju þessi tækifæri felast segir Brynjar áhersluna hafa verið á vaxtastig hagkerfisins en ekki megi gleyma að hér á landi séu afar stöndug og áhugaverð fyrirtæki skráð á markaði. „Flest eru þau beint (vaxtakostnaður) og óbeint (tekjur) háð vöxtum og það sem horfir við peningastefnunefnd Seðlabankans er að greina minni framleiðsluspennu til framtíðar með tilheyrandi áhrifum til lækkunar verðbólguvæntinga. Það sem ég get heilshugar mælt með fyrir fjárfesta er að hlusta vel á og greina hvert peningastefnunefnd hyggst stefna. Fari svo að við merkjum stefnubreytingu framleiðsluspennu og verðbólgvæntinga að mati nefndarinnar má gera ráð fyrir að hún hugi að frekari vaxtalækkunum með tilheyrandi áhrifum á verðlagningu eignamarkaða.“