Hluthafar Eikar fasteignafélags hf. samþykktu heimild stjórnar til að undirrita samrunasamning við Reiti fasteignafélag hf. með 83,88% atkvæða sem farið var með á fundinum.
Hluthafafundurinn fór fram í gærkvöldi en stjórn Eikar lagði fyrir hluthafa að hafna valfrjálsu yfirtökutilboði Regins í allt hlutafé félagsins. Að mati stjórnarinnar var hlutfall hluthafa Eikar í Reginn samkvæmt tilboðinu ósanngjarnt.
Arctica Finance veitti stjórn Eikar ráðgjöf en að þeirra mati væri sanngjarnt hlutfall hluthafa Eikar 50,6% á móti 49,4% hlutfalli hluthafa Regins, miðað við 6,2% fjármagnskostnað hjá báðum félögum.
Reginn hækkaði tilboðsverðið úr 0,452 hlutum í 0,489 hluti rétt fyrir fundinn sem samsvarar 48% útgefins hlutafjár í Reginn en það dugði ekki til.
Stjórn Eikar og stjórn Reita tilkynntu hófu samrunaviðræður í sumar en stjórn Eikar hefur nú skýra heimild til að ljúka þeim frá hluthöfum.
„Hluthafafundur Eikar fasteignafélags hf. samþykkir að stjórn félagsins sé heimilt að gera samrunasamning við Reiti fasteignafélag hf. þar sem fram koma helstu skilmálar og forsendur samruna við Reiti fasteignafélag hf.
Að öðru leyti en greinir sérstaklega í samþykki þessu skal stjórn félagsins heimilt að semja um efni samrunasamningsins sem og samrunaáætlunar og annarra samrunagagna samkvæmt lögum um hlutafélög sem mynda skulu órjúfanlegan hluta samrunasamningsins,” segir í fundargerð.
„Stjórn skal eingöngu heimilt að undirrita samrunagögn á grundvelli samrunasamningsins ef fyrir liggur að yfirtökutilboð Regins hf. í félagið hafi ekki verið samþykkt af tilskildum meirihluta hluthafa,” segir það enn fremur.
Stjórn Eikar mun lögum samkvæmt þurfa að leggja samrunasamningin við Reiti fyrir hluthafa til endanlegrar ákvörðunar.
Starfsfólk Eikar mótfallið tilboði Regins
Í greingargerð sem stjórn Eikar lagði fyrir hluthafa á fundinum var einnig að finna álit starfsmanna félagsins sem voru mótfallnir yfirtökutilboði Regins.
„Yfirtökutilboðið veldur því að margir upplifa ótta við að missa starf sitt, annars konar óvissu, svo sem vegna tilfærslu starfsstöðvar, og aukið álag,” segir í áliti starfsfólks Eikar sem fylgir greinargerð stjórnarinnar til hluthafa.
Að mati starfsmanna hafa fjöldi verkefna tafist eða stöðvast vegna þess álags sem hefur fylgt yfirtökutilboðinu.
„Innan félagsins starfar samheldinn hópur með ríka vinnustaðarmenningu og starfsfólki líst almennt illa á að henni verði stokkað upp og hópnum tvístrað,” segir þar enn fremur.
Enginn önnur mál voru á dagskrá hluthafafundarins og var honum slitið rúmum klukkutíma eftir að hann hófst.