Sam­kvæmt til­kynningu John Bean Technologies hafa öll skil­yrði valfrjálsa yfirtökutil­boðsins nú verið upp­fyllt, þar með talið samþykki hlut­hafa Marel sem eiga yfir 90% af út­gefnum og útistandandi hlutum í félaginu.

Í kauphallartilkynningu frá Marel segir að gert sé ráð fyrir að JBT muni birta frekari upp­lýsingar um niður­stöður yfir­töku­til­boðsins innan tíðar með til­kynningu til bandaríska verðbréfa­eftir­litsins (SEC).

Samkvæmt félaginu tekur nú við undir­búningur upp­gjörs þar sem gengið verður frá við­skiptunum í samræmi við skilmála þess.

„Dagurinn í dag markar spennandi tímamót í sameiningarvegferð þessara tveggja frábæru fyrirtækja, Marel og JBT. Stuðningur hluthafa Marel, sem endurspeglast í yfir 90% samþykkishlutfalli, undirstrikar sterka sannfæringu fyrir því hversu vel félögin passa saman og þeim miklu sóknarfærum sem JBT Marel mun búa yfir.

Ég vil færa hluthöfum okkar einlægar þakkir fyrir mikinn stuðning í gegnum árin og ég er þess fullviss að sameinað félag mun halda áfram að byggja á arfleifð Marel eins og við höfum gert síðustu 40 ár. Ég er jafnframt mjög spenntur fyrir því sem framtíðin ber í skauti sér fyrir starfsfólk okkar, viðskiptavini og hluthafa. Við munum byggja á því besta sem bæði fyrirtækin hafa fram að færa og ná árangri sem hvorugt félag hefði náð hvort í sínu lagi. Saman munum við skapa betri, sterkari og sjálfbærari alþjóðlega virðiskeðju matvæla,“ segir Árni Sigurðsson forstjóri Marel.

Uppgjör á nýju ári

Gert er ráð fyrir að endanlegt uppgjör tilboðsins muni fara fram þann 2. janúar 2025.

Þeir hluthafar Marel sem hafa með löglegum hætti samþykkt tilboðið munu fá sem endurgjald fyrir hvern hlut í Marel annað hvort reiðufé, hluti í JBT eða blöndu af reiðufé og hluti í JBT, og er endurgjaldið háð hlutföllun í samræmi við skilmála tilboðsins.

JBT stefnir að innlausn eftirstandandi hlutafjár í Marel sem ekki var selt í yfirtökutilboðsferlinu og mun óska eftir afskráningu á hlutabréfum Marel hjá Nasdaq Iceland og Euronext Amsterdam eins fljótt og auðið er í samræmi við reglur sem um það gilda.

Þar sem eignarhlutur JBT á hlutafé í Marel verður yfir 90% þegar uppgjöri lýkur, mun JBT óska eftir innlausn eftirstandandi hlutafjár í samræmi við ákvæði 110. gr. laga nr. 108/2008 um yfirtökur, innan þriggja mánaða frá uppgjöri tilboðsins.

„Þar sem eignarhlutur JBT á hlutafé í Marel verður yfir 90% þegar uppgjöri lýkur, mun JBT óska eftir innlausn eftirstandandi hlutafjár í samræmi við ákvæði 110. gr. laga nr. 108/2008 um yfirtökur, innan þriggja mánaða frá uppgjöri tilboðsins,“ segir í Kauphallartilkynningu.

Tvískráning hlutabréfa JBT Marel á Nasdaq Iceland þann 3. janúar 2025

Samhliða kaupum JBT á Marel, verður nafni JBT og kauphallarauðkenni breytt í „JBT Marel Corporation“ og „JBTM“ til styttingar.

Hlutabréf JBTM verða áfram skráð á New York Stock Exchange (NYSE) og tvískráð á Nasdaq Iceland, en samþykki Nasdaq Iceland á skráningu félagsins á markað liggur þegar fyrir.

Gert er ráð fyrir að hlutabréf JBTM muni verði tekin til viðskipta á bæði NYSE og Nasdaq Iceland þann 3. janúar 2025.