Yfir 90% hlutahafa Metro Bank í Bretlandi hafa samþykkt björgunarpakka til að rétta af fjárhagsstöðu bankans.
Hlutabréf bankans hafa fallið um 66% á árinu en greint frá því í haust að bankinn væri mjög skuldsettur og þyrfti að endurfjármagna stóran hluta þeirra skulda.
Samkvæmt björgunarpakkanum sem hluthafar samþykktu í morgun verður farið í 150 milljón punda hlutafjárútboð ásamt því að sækja 325 milljón punda fjármögnun til að endurfjármagna um 600 milljón punda skuld.
Stærsti hluthafi bankans, kólumbíski milljarðamæringurinn, Jaime Gilinski Bacal, mun kaupa í bankanum fyrir 102 milljónir punda. Hlutur hans mun fara úr 9% í 53% eftir aðgerðirnar og verður hann í kjölfarið ráðandi hluthafi.
Hlutabréf bankans hafa hækkað um rúm 7% í morgun eftir að niðurstaðan var staðfest.