Hluthafar Ölgerðarinnar samþykktu á aðalfundi félagsins í dag nýja heimild fyrir stjórn til að hækka hlutafé félagsins um allt að 80 milljónir króna að nafnverði vegna kaupréttaráætlunar sem tekur til starfsmanna.
Samkvæmt samþykktum breytingum á samþykktum félagsins verður stjórn heimilt að gefa út allt að 80 milljónir hluta, að nafnverði ein króna hver, til að efna skuldbindingar samkvæmt kaupréttarsamningum sem gerðir verða við starfsmenn á grundvelli áætlunarinnar. Hluthafar hafa með þessu fallið frá forgangsrétti sínum að þessum hlutum.
Heimildin gildir til 8. maí 2030 og felur í sér að stjórn félagsins getur ráðist í hlutafjárhækkunina í einu lagi eða í áföngum, allt eftir því hvernig nýting kaupréttar þróast. Hlutirnir munu veita réttindi frá skráningardegi hverrar hækkunar.
Kaupréttur að 750 þúsund kr. á ári
Kaupréttaráætlunin sjálf, sem var samþykkt sem hluti af endurskoðaðri starfskjarastefnu, kveður á um að starfsmönnum Ölgerðarinnar og eftir atvikum dótturfélaga sé heimilt að kaupa hluti í félaginu fyrir allt að 750.000 krónur á ári í þrjú ár, að hámarki 2,25 milljónir króna á mann.
Kaupverð hlutanna skal ákveðið í samræmi við ákvæði 10. gr. laga um tekjuskatt, sem kveður á um skilyrði skattaívilnunar.
Með áætluninni hyggst félagið tengja betur saman hagsmuni starfsfólks og hluthafa með því að veita starfsmönnum möguleika á að verða hluthafar með hagstæðum kjörum.
Slíkar áætlanir hafa orðið sífellt algengari meðal skráðra félaga og eru taldar efla langtímatryggð og samkeppnishæfni í ráðningum og mannauðsstjórnun.
Samþykkt aðalfundarins felur ekki í sér að hlutafjárhækkun hafi þegar átt sér stað heldur að stjórn hefur nú lagalega heimild til að framkvæma hana þegar og ef kaupréttaráætlunin er virkjuð. Þá mun stjórn einnig ákveða áskriftargengi og aðra skilmála hverju sinni.