Hlut­hafar Öl­gerðarinnar samþykktu á aðal­fundi félagsins í dag nýja heimild fyrir stjórn til að hækka hluta­fé félagsins um allt að 80 milljónir króna að nafn­verði vegna kaupréttaráætlunar sem tekur til starfs­manna.

Sam­kvæmt samþykktum breytingum á samþykktum félagsins verður stjórn heimilt að gefa út allt að 80 milljónir hluta, að nafn­verði ein króna hver, til að efna skuld­bindingar sam­kvæmt kaupréttar­samningum sem gerðir verða við starfs­menn á grund­velli áætlunarinnar. Hlut­hafar hafa með þessu fallið frá for­gangs­rétti sínum að þessum hlutum.

Heimildin gildir til 8. maí 2030 og felur í sér að stjórn félagsins getur ráðist í hluta­fjár­hækkunina í einu lagi eða í áföngum, allt eftir því hvernig nýting kaupréttar þróast. Hlutirnir munu veita réttindi frá skráningar­degi hverrar hækkunar.

Kaupréttur að 750 þúsund kr. á ári

Kaupréttaráætlunin sjálf, sem var samþykkt sem hluti af endur­skoðaðri starfs­kjara­stefnu, kveður á um að starfsmönnum Öl­gerðarinnar og eftir at­vikum dóttur­félaga sé heimilt að kaupa hluti í félaginu fyrir allt að 750.000 krónur á ári í þrjú ár, að há­marki 2,25 milljónir króna á mann.

Kaup­verð hlutanna skal ákveðið í samræmi við ákvæði 10. gr. laga um tekju­skatt, sem kveður á um skil­yrði skattaívilnunar.

Með áætluninni hyggst félagið tengja betur saman hags­muni starfs­fólks og hlut­hafa með því að veita starfsmönnum mögu­leika á að verða hlut­hafar með hagstæðum kjörum.

Slíkar áætlanir hafa orðið sí­fellt al­gengari meðal skráðra félaga og eru taldar efla langtíma­tryggð og sam­keppnis­hæfni í ráðningum og mann­auðs­stjórnun.

Samþykkt aðal­fundarins felur ekki í sér að hluta­fjár­hækkun hafi þegar átt sér stað heldur að stjórn hefur nú laga­lega heimild til að fram­kvæma hana þegar og ef kaupréttaráætlunin er virkjuð. Þá mun stjórn einnig ákveða áskriftar­gengi og aðra skilmála hverju sinni.