Fram er komin krafa hluthafa sem fara með samtals 10,18% eignarhlut í Sýn hf., þar sem óskað er eftir að boðað verið til hluthafafundar í félaginu innan 14 daga, til samræmis við 85. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 12. grein samþykkta Sýnar hf.
Auk þess er krafist að fundarefni verði stjórnarkjör samkvæmt 63. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Þetta kemur fram í tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar, en samkvæmt 13. grein samþykkta Sýnar hf. verður hluthafafundur boðaður með þriggja vikna fyrirvara.
Krafa um hluthafafund var sett fram af hálfu eftirfarandi hluthafa, sem eins og áður segir fara með samtals 10,18% eignarhlut í Sýn hf.:
- Fasta ehf., sem skráð er fyrir 20.650.000 hlutum í Sýn hf.;
- Tækifæris ehf., sem skráð er fyrir 6.015.462 hlutum í Sýn hf.; og
- Borgarlindar ehf., sem skráð er fyrr 650.000 hlutum í Sýn hf.
Fasti ehf. er í eigu hjónanna Hilmars Þórs Kristinssonar og Rannveigar Eirar Einarsdóttur. Hjónin eiga meirihluta í verktakafyrirtækinu Reir Verk.
Tækifæri ehf. er í eigu Arnars Más Jóhannessonar og Trausta Ágústssonar, en félagið var stofnað í mars síðastliðnum. Arnar Már starfar sem endurskoðandi hjá Rýni endurskoðun og var áður fjármálastjóri fjárfestingafélagsins Atorku á árunum 2007-2009. Trausti Ágústsson er stjórnarformaður og hluthafi vátryggingamiðlunarinnar Tryggingar og ráðgjöf, sem hefur meðal annars séð um sölu á tryggingum frá Novis hér á ldni.
Borgarlind ehf. er í eigu Stefáns Más Stefánssonar.
Stjórn Sýnar var kjörin á hluthafafundi fyrir um þremur vikum síðan og kom þá Jón Skaftason nýr inn í aðalstjórn félagsins í stað Hjörleifs Pálssonar sem hafði gefið það út að hann sóttist ekki eftir endurkjöri.
Aðdragandinn að boðun hluthafafundarins fyrir þremur vikum síðan var bréf Gavia Invest til stjórnar Sýnar þar sem fjárfestingafélagið krafðist stjórnarkjörs en félagið festi kaup á 16,08% hlut í félaginu fyrr í sumar. Gavia á nú 10,92% hlut og er næst stærsti hluthafi Sýnar.
Þrír einstaklingar sem teljast til einkafjárfesta sóttust eftir kjöri, en Jón Skaftason sá eini sem hlaut kjör. Hilmar Þór Kristinsson, framkvæmdastjóri Reir og annar eigandi Fasta ehf. komst ekki í stjórn og heldur ekki Reynir Grétarsson stofnandi og fyrrum framkvæmdastjóri Credit Info.