Hlut­hafar í danska fyrir­tækinu Vestas, sem er stærsti vind­myllu­fram­leiðandi heims, eru allt annað en sáttir með upp­lýsinga­gjöf fyrir­tækisins eftir að fé­lagið greindi frá risa­reikni­villu á mánu­daginn, tveimur dögum áður en upp­gjör annars árs­fjórðungs birtist í dag.

Að sögn fjár­festa fengust litlar upp­lýsingar frá fyrir­tækinu á mánu­daginn en þegar upp­gjörið birtist í morgun kom í ljós að um væri að ræða hundruð milljóna evra skekkju á kostnaði við þjónustu á vind­myllum fyrir­tækisins. Félagið skilaði 230 milljóna evra tapi á fjórðungnum sem samsvarar um 35 milljörðum íslenskra króna.

Hluta­bréf fé­lagsins tóku dýfu á mánu­daginn og hafa lækkað um 8% síðast­liðna daga.

Sam­kvæmt Børsen hefur þjónustu­hlið rekstursins verið gull­gæs fé­lagsins sem gerir samninga til þrjá­tíu ára við vind­myllu­kaup­endur.

Hins vegar tókst fé­laginu að fram­reikna kostnaðar­hliðina vit­laust. Á­ætlað er að þetta muni hafa um 312 milljóna evra nei­kvæð á­hrif á EBIT fé­lagsins í ár.

Hluta­hafar vind­myllurisans voru gestir í hlað­varpi Børsen í morgun. Þar voru allir gáttaðir á reikni­villunni og upp­lýsinga­gjöf fé­lagsins.

„Þegar ég skoða upp­gjörið sé ég að Power Solutions, sem er í raun sala á vind­myllum, er að standa sig betur. Það mun hafa já­kvæð á­hrif á gengið. Ég hafði vonað að sú aukna sala á öðrum fjórðungi myndi vera það sem myndi hífa gengi fé­lagsins upp eftir birtingu upp­gjörs. Að því sögðu þá vil ég segja að upp­lýsinga­gjöf þeirra er ekki í sam­ræmi við hefð­bundin fjár­festa­tengsl. Þetta er svo illa gert,“ segir Ole Søeberg, fjár­festir og hlut­hafi í Vestas í sam­tali við Børsen.

„Ég held þau hafi ekki gert neitt laga­lega rangt en þau voru búin að komast að því að á­kveðinn kostnaður í tengslum við þjónustuna hafi verið hærri en á­ætlanir gerðu ráð fyrir og því var á­kveðið að af­skrifa hann allt í einu. Hvernig gerist þetta bara allt í einu á öðrum árs­fjórðungi? Af hverju var þetta gert fyrir mörgum árum síðan eða dreift yfir margra ára tíma­bil?“ segir Søeberg.

Henrik Henriks­sen, markaðssér­fræðingur hjá Peter­sen & Partners, tekur undir með Søeberg og segir reikni­villuna miður fyrir fjár­festa. „Fram­leiðsla og sala var að taka við sér aftur og bjuggust allir við að annar fjórðungur yrði stöðugur.“

Simon Kirketerp, rit­stjóri Børsen, segir í sam­tali við þá báða að það eina já­kvæða í þessu sé að það sé alla­vega búið að stilla bækurnar af núna.

Henrik Ander­sen, for­stjóri Vestas, sagði í upp­gjörinu að það hafi komið í ljós að það væri „beygla á bílnum“ og nú þyrfti fé­lagið að bretta upp ermar og laga hana.