Hluthafar í danska fyrirtækinu Vestas, sem er stærsti vindmylluframleiðandi heims, eru allt annað en sáttir með upplýsingagjöf fyrirtækisins eftir að félagið greindi frá risareiknivillu á mánudaginn, tveimur dögum áður en uppgjör annars ársfjórðungs birtist í dag.
Að sögn fjárfesta fengust litlar upplýsingar frá fyrirtækinu á mánudaginn en þegar uppgjörið birtist í morgun kom í ljós að um væri að ræða hundruð milljóna evra skekkju á kostnaði við þjónustu á vindmyllum fyrirtækisins. Félagið skilaði 230 milljóna evra tapi á fjórðungnum sem samsvarar um 35 milljörðum íslenskra króna.
Hlutabréf félagsins tóku dýfu á mánudaginn og hafa lækkað um 8% síðastliðna daga.
Samkvæmt Børsen hefur þjónustuhlið rekstursins verið gullgæs félagsins sem gerir samninga til þrjátíu ára við vindmyllukaupendur.
Hins vegar tókst félaginu að framreikna kostnaðarhliðina vitlaust. Áætlað er að þetta muni hafa um 312 milljóna evra neikvæð áhrif á EBIT félagsins í ár.
Hlutahafar vindmyllurisans voru gestir í hlaðvarpi Børsen í morgun. Þar voru allir gáttaðir á reiknivillunni og upplýsingagjöf félagsins.
„Þegar ég skoða uppgjörið sé ég að Power Solutions, sem er í raun sala á vindmyllum, er að standa sig betur. Það mun hafa jákvæð áhrif á gengið. Ég hafði vonað að sú aukna sala á öðrum fjórðungi myndi vera það sem myndi hífa gengi félagsins upp eftir birtingu uppgjörs. Að því sögðu þá vil ég segja að upplýsingagjöf þeirra er ekki í samræmi við hefðbundin fjárfestatengsl. Þetta er svo illa gert,“ segir Ole Søeberg, fjárfestir og hluthafi í Vestas í samtali við Børsen.
„Ég held þau hafi ekki gert neitt lagalega rangt en þau voru búin að komast að því að ákveðinn kostnaður í tengslum við þjónustuna hafi verið hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir og því var ákveðið að afskrifa hann allt í einu. Hvernig gerist þetta bara allt í einu á öðrum ársfjórðungi? Af hverju var þetta gert fyrir mörgum árum síðan eða dreift yfir margra ára tímabil?“ segir Søeberg.
Henrik Henrikssen, markaðssérfræðingur hjá Petersen & Partners, tekur undir með Søeberg og segir reiknivilluna miður fyrir fjárfesta. „Framleiðsla og sala var að taka við sér aftur og bjuggust allir við að annar fjórðungur yrði stöðugur.“
Simon Kirketerp, ritstjóri Børsen, segir í samtali við þá báða að það eina jákvæða í þessu sé að það sé allavega búið að stilla bækurnar af núna.
Henrik Andersen, forstjóri Vestas, sagði í uppgjörinu að það hafi komið í ljós að það væri „beygla á bílnum“ og nú þyrfti félagið að bretta upp ermar og laga hana.