Hluthöfum Icelandair fækkaði um 1.492 talsins, eða um 9,4%, á milli ára og voru samtals 14.404 í árslok 2023, að því er kemur fram í nýbirtu ársuppgjöri flugfélagsins. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2017 sem hluthöfum Icelandair fækkar milli ára.
Á eftirfarandi mynd má sjá þróun hluthafafjölda flugfélagsins á undanförnum átta árum. Hluthöfum Icelandair fjölgaði um meira en 10 þúsund árið 2020, sem skýrist einkum af 30 milljarða króna hlutafjárútboði félagsins haustið 2020.
Hvað fækkun hluthafa Icelandair á síðasta ári varðar, þá kann að spila inn í að hlutabréfaverð félagsins féll um 16,8% á árinu og stóð í 1,34 krónum um áramótin. Þá höfðu jarðhræringar, eldgos og verkföll flugumferðastjóra töluverð áhrif á afkomu félagsins á síðasta ársfjórðungi ásamt því að fraktstarfsemi flugfélagsins var undir væntingum á árinu. Eins hefur heimsmarkaðsverð á eldsneyti haldist nokkuð hátt.
Engu að síður skilaði Icelandair hagnaði eftir skatta á ársgrundvelli í fyrsta sinn frá árinu 2017. Þess má einnig geta að félagið skrifaði í apríl á síðasta ári undir sögulegan samning um kaup á allt að 25 flugvélum frá Airbus.
Áfram með fjölmennasta hluthafahópinn
Icelandair er þó að öllum líkindum áfram með fjölmennasta hluthafahópinn af félögum Kauphallarinnar, í það minnsta af þeim félögum sem eru ekki með aðalskráningu á öðrum markaði.
Íslandsbanki og Arion banki hafa verið með næst fjölmennustu hluthafahópana á eftir Icelandair en bankarnir voru með á bilinu 11-12 þúsund hluthafa hvor um sig í lok þriðja ársfjórðungs.