Fleiri en 1.600 fjárfestar hafa selt sig út úr Nova frá því að fjarskiptafélagið var skráð í Kauphöllina í júní. Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að hluthafar Nova hafi verið um 3.400 talsins í lok október. Hluthöfum Nova hefur fækkað um þriðjung á rúmu hálfu ári.

Að loknu 8,7 milljarða króna frumútboði Nova í júní síðastliðnum voru hluthafar fjarskiptafélagsins yfir fimm þúsund talsins. Af rúmlega 5 þúsund áskriftum í útboðinu voru um 1.500 frá viðskiptavinum.

Lækkun hlutabréfaverð Nova frá skráningu gæti hafa hreyft við einhverjum hluthöfum. Gengi Nova endaði daginn í 3,92 krónum á hlut og hefur aldrei verið lægra. Hlutabréf félagsins eru nú 23% undir 5,11 krónu útboðsgenginu.

Enn með einn fjölmennasta hluthafahópinn

Þrátt fyrir lækkun hlutabréfaverðsins og að Nova sé minnsta félagið á aðalmarkaði Kauphallarinnar, sé litið til markaðsvirðis, þá er fjarskiptafélagið enn með einn fjölmennasta hluthafahópinn.

Miðað við síðustu útgefnar upplýsingar um fjölda hluthafa hjá öllum 22 félögum aðalmarkaðarins er Nova með sjöunda fjölmennasta hluthafahópinn.

Til samanburðar voru hluthafar Símans 1.242 talsins í lok september. Þá var Sýn með 326 hluthafa í lok síðasta árs. Hafi þeim ekki fjölgað töluvert í ár má ætla að Sýn sé með fámennasta hluthafahóp aðalmarkaðarins.

Félög aðalmarkaðarins röðuð eftir fjölda hluthafa m.v. síðustu útgefnu upplýsingar

Félag Fjöldi hluthafa Dags.
Icelandair 16.164 7.11.2022
Íslandsbanki 13.559 30.9.2022
Arion 12.350 30.9.2022
Marel 8.000 30.9.2022
Ölgerðin 6-7.000 1.6.2022
Síldarvinnslan 3.700 11.8.2022
Nova 3.400 31.10.2022
Kvika banki 2.820 31.12.2021
Brim 1.783 20.6.2022
Sjóvá 1.307 30.9.2022
Síminn 1.242 30.9.2022
Festi 1.229 30.9.2022
Hagar 1.044 30.8.2022
Origo 1.011 30.9.2022
Skel 1.011 30.6.2022
Eimskip 973 2.11.2022
VÍS 957 30.9.2022
Reitir 879 30.9.2022
Iceland Seafood 829 30.6.2022
Reginn 523 30.9.2022
Eik 510 31.12.2022
Sýn 326 31.12.2021