Flugfélagið Play flutti 98.863 farþega í desember 2024, borið saman við 114.265 farþega í desember árið 2023 sem samsvarar 13,5% samdrætti milli ára.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar rekur Play þetta til ákvörðunar um að leigja eina af farþegaþotum félagsins til GlobalX í Miami og aðlaga framboðið eftir árstíðabundnum sveiflum.

Sætanýtingin Play í desembermánuði batnaði á milli ára og var 78,9% samanborið við 76,2% á sama tíma í fyrra. Sætanýting Play á árinu 2024 var 85,3% samanborið við 83,4% á árinu 2023.

Breytingar á leiðakerfinu hafi lagst vel í markaðinn

Play tilkynnti um miðjan októbermánuð um „grundvallarbreytingu“ á viðskiptalíkaninu félagsins með aukna áherslu á sólarlandaáfangastaði frá Íslandi og minni áherslu á tengiflug milli Norður-Ameríku og Evrópu.

Í tilkynningu Play segir að hlutur sólarlandaáfangastaða í leiðakerfi félagsins hafi aukist úr 16% í desember árið 2023 upp í 22% í desember árið 2024.

„Sólarlandaáfangastaðirnir gefa af sér betri afkomu, en þar sem um er að ræða beint flug frá Íslandi þar sem tengifarþegar eru ekki fyrir hendi, kemur það jafnan niður á sætanýtingu, sér í lagi í kringum hátíðir. Þrátt fyrir það, varð aukning á milli ára á sætanýtingu í desember, sem endurspeglar aukna eftirspurn og að breytingar á leiðakerfinu hafi lagst vel í markaðinn.“

Play segir að góð áhrif þessara breytinga megi einnig sjá á einingatekjum félagsins sem hafa aukist á milli ára. Desember hafi verið fjórði mánuðurinn í röð þar sem vöxtur varð á einingatekjum á milli ára og gerir Play ráð fyrir að sú þróun haldi áfram árið 2025.

Flugfélagið bendir á að það verði með dagleg flug til Alicante á Spáni um páska og verður flogið fimm sinnum í viku frá lok maí til loka júlí. Að öðru leyti mun Play fljúga þrisvar í viku til Alicante. Þá verði ferðum til Madríd fjölgað úr tveimur í þrjár á viku frá því snemma í ágúst til miðbiks september. Auk þess er Play að byrja með sumarferðir til eyjunnar Madeira, en hingað til hefur Play aðeins flogið til Madeira yfir vetrarmánuðina, frá september til maí.

„Það er afar ánægjulegt að sjá aukningu í farþegum sem ferðast með okkur frá Íslandi. Heimamarkaðurinn er okkur mikilvægur og við höldum áfram að vera fyrsta val Íslendinga sem vilja komast í sólina. Það er einnig gott að sjá aukningu í farþegum sem ferðast með okkur til Íslands, sem endurspeglar það mikla starf sem hefur verið unnið við að kynna Play sem traustan og góðan valkost fyrir erlenda ferðamenn,” segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.