Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir ómaklega hafa verið vegið að Þórarni Inga Péturssyni, þingmanni Framsóknarflokksins og formanni atvinnuveganefndar Alþingis, í tengslum við kaup Kaupfélags Skagfirðinga á öllu hlutafé í Kjarnafæði Norðlenska hf.
Meirihluti atvinnuveganefndar lagði fram breytingar á búvörulögunum á síðasta þingi sem fela í sér undanþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá samkeppnislögum.
Þórarinn Ingi á 0,6% hlut í Búsæld ehf., sem á 43% hlut í Kjarnafæði Norðlenska.
„Til margra ára hefur verið bent á þetta og óskað eftir breytingu á búvörulögum svo afurðafyrirtæki í kjöti ættu möguleika á sömu hagræðingu og hefur skilað um þriggja milljarða hagræðingu á ári í mjólkuriðnaði bændum og neytendum til góða. Það var ekki fyrr en síðasta vor sem breyting á búvörulögum gaf afurðafyrirtækjum í kjöti, sem starfa sem framleiðendafélög, víðtækar heimildir til hagræðingar og samstarfs til að bregðast við,“ skrifar Steinþór í Morgunblaðið í dag.
Seinþór bendir á að íslenskur kjötmarkaður hefur tekið miklum breytingum á fáum árum.
Með tollasamningum íslenska ríkisins hefur aðgangur erlendra aðila verið auðveldaður og er svo komið að um 30% af heildarmarkaði í nauti og svíni eru innflutt kjöt. Samanlögð velta allra innlendra kjötafurðastöðva er um 5% af veltu eins þeirra stóru aðila sem selja kjöt til Íslands svo dæmi sé tekið.
Hann segir að margir hagsmunaaðilar hafi stigið fram og mótmælt undanþágunni með ýmiss konar rökum.
Það sé eðlilegt því hagsmunir eru með mismunandi hætti og margir sem telja hagsmunum sínum best borgið með „óbreyttri stöðu þar sem innlend framleiðsla, landbúnaður sem úrvinnsla, hafi hægt og bítandi hörfað undan vaxandi innflutningi.“
„Í því skyni að koma höggi á þá sem studdu breytingu á búvörulögum hefur öðrum fremur verið vegið að Þórarni Inga Péturssyni, formanni atvinnuveganefndar Alþingis, með mjög ómaklegum hætti. Hann verið sakaður um að láta persónulegan ávinning af sölu á hlut í Búsæld ráða gjörðum sínum,” skrifar Steinþór.
Þórarinn sagði í fjölmiðlum á sínum tíma að það hafi alltaf legið fyrir að hann ætti hlut í Búseld og hann hafi ekki íhugað að lýsa yfir vanhæfi í nefndarstörfum sínum.
„Hann verið sakaður um að láta persónulegan ávinning af sölu á hlut í Búsæld ráða gjörðum sínum. Og hver væri þá ávinningur Þórarins ef hann hefði selt hlut sinn í Búsæld, sem hann ætlar reyndar ekki að gera, til KS samhliða kaupum þeirra á meirihluta hlutafjár í Kjarnafæði/Norðlenska?“ spyr Steinþór.
Vonbrigði að sjá óvönduð vinnubrögð hjá RÚV
Steinþór bendir á að Þórarinn og kona hans eiga 0,6% af hlutafé í Búsæld sem er að nafnverði 2,8 milljónir króna. Hlutur þeirra var keyptur með hluta af innleggsverði yfir margra ára tímabil.
„Með öðrum orðum þá greiddu þau hjón 2,8 m.kr. fyrir þennan hlut og má hóflega reikna ofan á kaupverðið fjármagnskostnað til margra ára af 2,8 m.kr. sem a.m.k. 0,8 m.kr. Þeim stóð til boða að selja KS þennan hlut á genginu 2,2 sem gerir þá 6,2 m.kr. og má því ef til vill segja að hagnaður, ef hluturinn hefði verið seldur, væri mismunurinn sem er 2,6 m.kr. Hlutur Þórarins af því væri 1,3 m.kr. Heldur virkilega einhver að þingmaður, hver sem væri, selji stuðning sinn við lagabreytingu fyrir rúma eina milljón króna?“ spyr Steinþór.
Að lokum segir Steinþór að það komi sér ekki á óvart að andstæðingar í stjórnmálum reyni að gera úr þessu spillingarmáli og noti fjölmiðla sér vinveitta til þess.
„En það veldur miklum vonbrigðum að sjá fjölmiðil allra landsmanna, RÚV, vega ítrekað að Þórarni og afhjúpa þannig óvönduð vinnubrögð. Valdi fylgir ábyrgð og afurðastöðvar, sem munu nýta sér heimildir til hagræðingar og samstarfs, verða að sýna að það skili bændum og neytendum ávinningi.“