Þörf er á uppbyggingu fleiri íbúða en sem nemur mannfjölgun á næstu áratugum vegna lækkandi fæðingartíðni og hærri lífaldurs, segir í frétt á vef HMS. Stofnunin telur að byggja þurfi um 4.000 íbúðir á hverju ári til ársins 2050 til þess að sinna íbúðaþörf.

„Fjölgun íbúa yfir sextugu, samhliða hlutfallslegri fækkun íbúa undir tvítugu getur leitt til þess að íbúum á hverju heimili fækkar hérlendis úr 2,4 niður í 2 árið 2050. Til þess að halda í við þá þróun og vænta mannfjölgun þyrfti að byggja um 4.000 íbúðir á hverju ári.“

Mynd tekin úr frétt á vef HMS.

Spá HMS er sögð í samræmi við miðspá um íbúðaþörf í húsnæðisáætlunum sveitarfélaga næstu tíu árin og markmið ríkis og sveitarfélaga samkvæmt rammasamningi um aukna uppbyggingu íbúða.

„Þrátt fyrir metuppbyggingu á árunum 2019-2023, þar sem meðalfjöldi fullbúinna íbúða jókst um tæplega 3.000 á ári, er útlit fyrir að uppbyggingin nái ekki að halda í við þörfina til lengri tíma. Ný íbúðatalning hjá HMS bendir til að nýbyggingar verði umtalsvert færri árið 2026, þar sem spáð er um 2.400 nýjum íbúðum það ár.“

HMS segir að ef þróunin haldi áfram án viðeigandi uppbyggingar geti skapast framboðsskortur sem þrýstir upp fasteigna- og leiguverði.