Samkvæmt nýjustu talningu frá HMS má búast við 2.843 fullbúnum íbúðum í ár og 2.814 íbúðum á næsta ári. Spáin gerir ráð fyrir færri fullbúnum íbúðum en fyrri spár.

Tölur HMS sýna einnig að framkvæmdir séu þegar byrjaðar á 8.971 íbúð.

Í greiningunni kemur fram að uppbygging íbúða er mest á höfuðborgarsvæðinu en þar eru 69,7% af öllum íbúðum sem eru í byggingu. Næstflestar íbúðir sem eru í byggingu eru í Hafnarfirði en utan höfuðborgarsvæðisins eru 605 í byggingu við Árborg og 286 í byggingu á Akureyri.

Mikil aukning er á fjölda íbúða þar sem framvinda helst óbreytt á milli talninga og er mesta aukningin á framvindustigi 4. Flestar íbúðirnar með óbreytta framvindu eru á höfuðborgarsvæðinu en á við á öllum landsvæðum.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Ef framkvæmdir eru lengi á sama framvindustigi getur það verið vísbending um að hægt hafi verið á framkvæmdum og á það sérstaklega við um framvindustig 1 (jarðvinna hafin), framvindustig 2 (undirstöður tilbúnar) og framvindustig 4 (fokhelt mannvirki) þar sem yfirleitt má vænta þess að framvinda teljist á næsta framvindustigi á þeim 6 mánuðum sem að jafnaði eru á milli talninga,“ segir í greiningunni.

Talningin er í samræmi við niðurstöður nýlegrar greiningar Samtaka iðnaðarins (SI) þar sem varað við verulegum samdrætti á íbúðamarkaði, m.a. vegna hækkandi fjármagnskostnaðar. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, sagðist gera ráð fyrir að áhrifanna muni gæta strax árið 2025.