Íbúðum sem teknar hafa verið af sölu hefur fjölgað hratt á síðustu mánuðum samkvæmt frétt á vef HMS. Stofnunin segir fjölgun íbúða sem teknar hafa verið úr sölu benda til þess að umsvif á fasteignamarkaði hafi aukist á síðustu tveimur mánuðum.

Í febrúar voru um 1.127 eignir teknar af sölu, samanborið við 950 í janúar og 661 í desember síðastliðnum.

Samkvæmt HMS var fjöldi eigna sem tekin var úr sölu í janúar og febrúar um helmingi fleiri í ár en á sama tímabili árin 2022 og 2023. Álíka margar fasteignir voru þó teknar úr sölu í janúar og febrúar 2021, þegar vextir á húsnæðislánum voru í sögulegu lágmarki.

Á fyrstu tveimur mánuðum síðasta árs voru þó vissulega fleiri eignir teknar úr sölu, en HMS rekur það til tímabundinna áhrifa á eftirspurnarhliðinni í fyrra vegna atburðanna í Grindavík.

Mynd tekin úr tilkynningu HMS.

„Hægt er að áætla umsvif á fasteignamarkaði út frá fjölda íbúða sem teknir eru af sölu á vefnum fasteignir.is í hverjum mánuði, þar sem sterk fylgni hefur verið á milli þeirra og fjölda útgefinna kaupsamninga mánuði seinna.“

Einnig kemur fram að hlutfall nýbygginga af framboði hafi lækkað á síðustu tveimur mánuðum frá hágildi hlutfallsins um síðustu áramót. Ríflega tvöfalt fleiri nýbyggingar voru teknar af sölu á höfuðborgarsvæðinu í janúar og febrúar samanborið við nóvember og desember í fyrra.