Hnit verkfræðistofa hefur sameinast einni af stærstu ráðgjafaverkfræðistofum Evrópu, Artelia Group. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.
Hnit verkfræðistofa hefur veitt almenna verkfræðiráðgjöf í meira en 50 ár á Íslandi, en fyrirtækið var stofnað árið 1970. Hjá fyrirtækinu starfa um 40 manns og verður með sameiningu við Artelia hluti af norrænni einingu Artelia Group.
„Ég lít á þetta sem frábært tækifæri fyrir okkur öll hjá Hnit þar sem öflugt bakland gefur okkur aukin tækifæri til að vinna að stórum og faglega krefjandi verkefnum. Sem hluti af stórum alþjóðlegum hópi og spennandi vinnustað getum við boðið viðskiptavinum aukna þjónustu og laðað til okkar nýtt hæfileikaríkt starfsfólk” segir Kristinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri Hnits
Artelia Group er alþjóðlegt verkfræðifyrirtæki sem starfar á sviðum bygginga, innviða, vatns, orku og iðnaðar. Félagið hefur skrifstofur í meira en 40 löndum Evrópu, Afríku, Mið-Austurlöndum, Asíu, Eyjaálfu og Ameríku. Fyrirtækið er 100% í eigu stjórnenda og starfsmanna. Starfsmenn eru um 10.000 og árleg velta yfir 1,15 milljarða evra.
Hnit verður hluti af viðskiptaeiningunni Artelia Nordic sem auk Hnits á Íslandi samanstendur af Artelia Danmörk með 10 starfsstöðvar og Dr. Techn. Olav Olsen í Noregi með þrjár starfsstöðvar og eru starfsmenn samtals um 1600. Artelia Danmörk leiðir norrænu eininguna.
„Þar sem Hnit verður hluti af Artelia mun það styrkja stöðu samstæðunnar á norrænum markaði. Með sameiningu faglegrar sérþekkingar innan norrænu viðskiptaeiningarinnar sem byggir á sameiginlegum gildum, skuldbindingum og fagmennsku, eflum við bæði viðskiptavini okkar, samstarfsaðila og starfsmenn“ segir Christian Listov-Saabye, framkvæmdastjóri Artelia Nordic.
Hnit hefur um nokkurra ára skeið átt náið samstarf við Artelia í nokkrum verkefnum hér á landi.
„Við lítum á samstarfið við alþjóðlega starfsemi Artelia og sterka norræna stöðu Artelia Nordic sem skref í frekari þróun okkar. Fyrir okkur er mjög mikilvægt að geta boðið hæfileikaríku starfsfólki okkar tækifæri til að leggja sitt af mörkum í spennandi og krefjandi verkefnum. Fyrir viðskiptavini okkar mun Hnit vera sama fyrirtækið og áður en nú með aðgang að aukinni sérfræðiþekkingu. Við erum mjög ánægð en auðvitað líka spennt að hefja nýjan kafla í sögu fyrirtækisins" segir Kristinn.