Bandaríska dómsmálaráðuneytið mun höfða mál gegn afþreyingarfyrirtækinu Live Nation, sem rekur meðal annars vefsíðuna Ticketmaster. Málið hefur verið staðfest af fréttamiðlinum CBS News.
Búist er við því að saksóknarar muni véfengja viðskiptahætti móðurfélags Ticketmaster að sögn heimildarmanna.
Í mörgum tilfellum þegar dómsmálaráðuneytið höfðar mál í slíkum samkeppnismálum þá leitast það við að þvinga fyrirtæki til að skilja við hluta af starfsemi sinni eða breyta vinnubrögðum sínum.
Fyrirtækið hefur verið sakað um að hafa of mikil áhrif á skemmtiviðburði í Bandaríkjunum og um heim allan og hefur sætt gagnrýni frá aðdáendum, þingmönnum og listamönnum. Í nóvember árið 2022 urðu einnig margir Taylor Swift-aðdáendur reiðir þegar vefsíðan hrundi í forsölu á Eras Tour.
Eftir að fréttir bárust af málinu lækkuðu hlutabréf Live Nation um meira en 6% í viðskiptum í New York. Hvorki dómsmálaráðuneytið né Live Nation hafa tjáð sig um málið við fjölmiðla.