Rekstur Sýnar hefur verið nokkuð þungur undanfarið og fyrir vikið hefur gengi hlutabréfa félagsins lækkað um 52% á síðustu 12 mánuðum. Í lok síðasta árs nam markaðsvirði Sýnar tæplega 8 milljörðum króna. Á þessu ári hefur gengi hlutabréfa Sýnar aftur á móti lækkað um nærri 33% og nemur markaðsvirði félagsins þegar þetta er skrifað 5,3 milljörðum króna.

Tap Sýnar eftir skatta, fyrir virðisrýrnun, nam 357 milljónum króna í fyrra, samanborið við 2,1 milljarð hagnað árið 2023. Leiðrétt fyrir hagnaði af sölu stofnnetsins var tap samstæðunnar 327 milljónir króna árið 2023.

Virðisrýrnunarpróf á viðskiptavild Sýnar leiddi í ljós tæplega 1,2 milljarða króna virðisrýrnun árið 2023. Helsta ástæða virðisrýrnunarinnar var hækkun á vegnum fjármagnskostnaði (WACC) úr 11,8% árið 2023 í 12,8% árið 2024, sem stafaði aðallega af hækkun áhættuálags í fjarskipta- og fjölmiðlageiranum. Einnig hafði áhrif að félagið lækkaði áður útgefnar horfur í rekstri fyrir árið 2025. Tekið er fram í tilkynningu með ársuppgjöri Sýnar fyrir árið 2024 að virðisrýrnun hafi ekki áhrif á rekstrarhæfi félagsins til lengri tíma, sjóðstreymi eða lánaskilmála.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 21,6 milljörðum króna, sem er lítillega lægra en árið 2023 þegar tekjurnar voru 21,7 milljarðar.

Handbært fé í árslok 2024 var 264 milljónir króna, samanborið við 624 milljónir króna í lok árs 2023. Þá kemur fram í ársreikningi að samstæðan hafi aðgang að 2 milljarða króna lánalínu og 500 milljóna yfirdrætti. Um áramótin hafi félagið verið með 1,9 milljarða af lánalínunni ádregna en lánaheimild vegna yfirdráttar verið ónýtt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.