„Andrúmsloftið á Íslandi er mjög jákvætt þessa dagana og áhuginn mikill, enda hefur hér aldrei verið meira fjármagn tileinkað sprotum,“ segir Helga Valfells, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Crowberry Capital, og telur upp þá fjóra nýju vísisjóði sem komið var á fót í fyrra á vegum Frumtaks, Brunns, Eyris og síðast en ekki síst Crowberry sjálfs. „Maður sér mikla vissu á Íslandi í samanburði við mikið óöryggi á mörkuðum erlendis.“

Þrátt fyrir góðan gang og bjartar horfur hefur íslenskt sprotaumhverfi þó ekki sloppið alfarið óskaddað, ef svo má að orði komast, við hrakfarir alþjóðlegra markaða það sem af er ári.

„Maður finnur fyrir ákveðinni varkárni hjá alþjóðlegum fjárfestum, og það verður fróðlegt að sjá hvernig haustið verður þar. Óvissan smitast svo yfir á vísisjóði sem á endanum þurfa að geta komið eignasafni sínu í verð. Geturðu skráð fyrirtækið á markað eða er eitthvert fyrirtæki sem er þegar skráð tilbúið að kaupa það af þér?“

Sjá einnig: 60 milljarðar í íslenska sprota

Áhrifin séu eins og gefur að skilja meiri eftir því sem viðkomandi sproti sé kominn lengra í vaxtarferlinu og þar með nær þeim tímapunkti að sjóðurinn finni honum nýja eigendur og losi um fjárfestingu sína. Íslenskum vísisjóðum til happs séu sprotar þeirra flestir á fyrri hluta ferlisins – 5-10 ár geti jafnan verið í að til sölu komi – og áhrifin hér því minni fyrir vikið.

Kreppuárið það besta í sögunni þegar upp var staðið

Helga bendir enn fremur á að verðmat sprotafyrirtækja hafi verið orðið „fáránlega hátt“, sérstaklega á stærri sprotamörkuðum á borð við London eða sjálfan Kísildalinn. „Ég hugsa að verðmat eigi eftir að lækka eitthvað og það verði meiri vinna fyrir sjóðina að koma sprotum sínum í verð, allavega á næsta ári.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.