Íslenski markaðurinn tók við sér í viðskiptum dagsins eftir stöðugar lækkanir síðustu daga.
Mikill kaupþrýstingur var í fyrstu viðskiptum dagsins og rauk gengi allra skráðra félaga upp á við fyrir hádegi. Gengi flestra dalaði þó smá með deginum, sér í lagi eftir opnun markaða vestanhafs.
Um hálf ellefu leytið í dag hafði úrvalsvísitalan hækkað um 5,5% en hún lokaði deginum um 2,4% hærri en í gær.
Hlutabréfaverð Play leiddi hækkanir er gengi flugfélagsins fór upp um tæp 10% í örviðskiptum.
Gengi vaxtarfélaganna vænkast
Vaxtarfélögin, Oculis, Alvotech og Amaroq, sem hafa leitt lækkanir síðustu daga tóku við sér í dag.
Hlutabréfaverð Alvotech hafði um tíma hækkað um meira en 14% en dagslokagengi félagsins stendur í 1.075 krónum sem er 7,5% hærra en í gær.
Hlutabréfaverð Oculis hækkaði um 9,7% og nemur daglokagengið 2.040 krónum á hlut á meðan gengi Amaroq hækkaði um 4,3%.
Gengi bréfa JBT Marel hækkaði um 3,25% og stendur í 12.700 krónum á hlut eftir lokun markaða.
Sömu sögu má segja að evrópskum mörkuðum. Stoxx Europe 600 hækkaði um 3,9%, franska CAC 40 vísitalan hækkaði um 3,8% og þýska DAX um 4,7%.
FTSE 100 vísitalan hækkaði þá um tæp rúm 3% í viðskiptum dagsins.