Rekstur A- og B-hluta sveitarfélaganna varð ekki fyrir sömu búsifjum og ríkisreksturinn vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, enda hlutverk þeirra þrengra og fjárhagslegt svigrúm minna. Þróun afkomu síðustu áratuga hefur hins vegar ekki verið jákvæð, og horfur í rekstrinum til lengri tíma eru tvísýnar að margra mati.
Reykjavíkurborg sker sig úr frá nágrannasveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu á nokkra vegu, enda af annarri stærðargráðu. Í ár eru áætlaðar tekjur hennar nærri tvöfaldar allra nágrannanna samanlagt.
Rekstur sveitarfélaga er mun ónæmari fyrir hagsveiflum en ríkisins, eins og sjá má á afkomu þeirra í faraldrinum. Á meðan ríkissjóður var rekinn með á þriðja hundrað milljarða halla árið 2020, samanborið við lágan tveggja stafa jöfnuð ríkissjóðs árin á undan, var aðeins 2,8 milljarða halli á rekstri Reykjavíkurborgar á sama ári eftir 11,2 milljarða afgang árið áður, og næstu þrjú sveitarfélög í stærðarröðinni skiluðu hóflegum afgangi það ár. Áætlun borgarinnar fyrir árið hafði gert ráð fyrir 11,9 milljarða afgangi.
Ýmsar ástæður geta verið fyrir þessu. Hlutverk sveitarfélaga er mun þrengra en ríkisins, og stærsti hluti rekstrar þeirra felst í grunnþjónustu á borð við skólahald og þjónustu við fatlaða, sem ekki sveiflast mikið með hagsæld.
Þeim eru einnig settar mun þrengri skorður en ríkinu varðandi rekstur þeirra, og svigrúm og umboð til stórra pólitískra ákvarðana um reksturinn – á borð við stuðningsaðgerðir ríkisins í gegnum faraldurinn – því mun minna. Loks má nefna í tengslum við faraldurinn sérstaklega að mest voru áhrif hans á ferðaþjónustu, sem sveitarfélög hafa litlar beinar tekjur af.
Borgin stóð uppúr í fyrra
Flest sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins spá litlum eða jafnvel neikvæðum tekjuvexti á nýliðnu ári, en kröftugum tveggja stafa vexti á þessu ári. Afkoman er að sama skapi metin neikvæð eða mjög lítil hjá þeim flestum á síðasta ári en tekur örlítið við sér og verður jákvæð á þessu ári samkvæmt áætlunum.
Hjá borginni var hins vegar metafgangur í fyrra, 17,4 milljarðar króna samkvæmt útgönguspá, og tekjuvöxtur upp á 7,5%. Á þessu ári er gert ráð fyrir að afgangurinn helmingist í 8,6 milljarða og tekjurnar vaxi um 9,1%, minnst meðal sveitarfélaganna sex. Liðurinn „aðrar tekjur“ hefur mest að segja um tekjuvöxt síðasta árs hjá borginni, en hann jókst um ríflega 8 milljarða eða 11% milli ára í alls 84 milljarða.
4,2 milljarða aukning „annarra tekna“ var hjá eignasjóði borgarinnar – sem heldur utan um fyrirtæki í hennar eigu – og 2,8 milljarða aukning í A-hluta. Sami liður mun áfram standa undir meirihluta tekjuvaxtar þessa árs með ríflega 10 milljarða króna aukningu milli ára.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .