Skyndibitakeðjan KFC, sem áður hét Kentucky Fried Chicken, hefur tilkynnt að hún muni flytja höfuðstöðvar sínar í Bandaríkjunum frá Kentucky til Texas. Móðurfyrirtæki þess, Yum Brands, mun flytja frá Louisville í Kentucky til Plano í Texas.
Andy Beshea, ríkisstjóri Kentucky, segist vonsvikinn yfir ákvörðuninni og trúir því að stofnandi veitingastaðarins hefði verið það líka. „Nafn þessa fyrirtækis byrjar á Kentucky og hefur þannig markaðssett arfleifð og menningu ríkisins í sölu á vöru sinni.“
Ákvörðun Yum Brands, sem rekur einnig Pizza Hut og Taco Bell, er hluti af áætlun samstæðunnar um að hafa tvær höfuðstöðvar fyrir helstu vörumerki sín. Plano í Texas og Irvine í Kaliforníu verða höfuðstöðvarnar fyrir alla veitingastarfsemi fyrirtækisins.
Mörg önnur fyrirtæki hafa engu að síður undanfarin ár flutt starfsemi sína til Texas þar sem ríkið er talið mjög aðlaðandi fyrir fyrirtæki vegna lágra skatta og viðskiptavænnar stefnu.
Saga KFC í Kentucky nær aftur til ársins 1930 þegar stofnandi þess, Harland Sanders, byrjaði að selja steiktan kjúkling á bensínstöð í bænum Corbin. Í dag má sjá andlit ofurstans á meira en 24 þúsund KFC-veitingastöðum í yfir 145 löndum um allan heim.