Viðskiptaþvinganir vegna stríðsástandsins í Úkraínu hafa stöðvað nær alfarið útflutning Lýsis til Rússlands. Áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir um 750 milljóna króna tekjur af útflutningi til Rússlands í ár en þegar hefur verið selt fyrir um 80 milljónir. Félagið velti 12,4 milljörðum árið 2020 og því gæti tekjufall sem stafar af þessu ástandi orðið þungt fyrir reksturinn í ár. Katrín Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Lýsis, segir sárgrætilegt að horfa á eftir þeirri markaðssetningu í Rússlandi sem ráðist var í undanfarin ár.

„Við erum búin að leggja gríðarlega vinnu í að byggja upp okkar vörumerki í Rússlandi. Við eigum í samstarfi við stóra apótekakeðju í Rússlandi sem hefur ásamt okkur kostað miklu til í þessu starfi. Maður horfir á þetta eiginlega fara ofan í vaskinn,“ segir Katrín. Hún bætir við að Lýsis selji mikið af neytendavörum á þessum markaði sem bera framlegð og skili því verðmæti í þjóðarbúið.

Þá bendir hún á að dótturfélagið Akraborg sem selur niðursoðna þorsklifur í dós sem og önnur niðursuðufyrirtæki á Íslandi flytji töluvert inn til Úkraínu og Rússlands. Mörg íslensk fyrirtæki á þessu sviði munu því þurfa að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum. Katrín segir þó að sala Akraborgar til Úkraínu sé undir 1% af heildarveltu Lýsis.

Ítarlega er fjallað um margvísleg áhrif stríðsins á íslenskt efnahagslíf í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Flugfélög eru í þröngri stöðu vegna hækkunar olíuverðs og eiga mikið undir farsælu sumri eftir mögur ár í faraldrinum.
  • Rætt er við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um horfur í ríkisfjármálum og þá kjarasamningalotu sem framundan er.
  • Fjallað er um nýja nálgun við val á eignastýringarþjónustu.
  • Það stefnir í stórfelldan skort á leigubílum í sumar. Innviðaráðherra hefur í þriðja sinn lagt fram frumvarp sem myndi gjörbreyta leigubílamarkaðnum.
  • Eftir þriggja ára taprekstur náði eitt stærsta bílaumboð landsins vopnum sínum á ný í fyrra.
  • Fjölmiðlarýnir lítur yfir farinn veg með sóttvarnalækni og fjallar um rússneskan áróður í ríkismiðlinum.
  • Gísli Freyr Valdórsson, nýr viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins er tekinn tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um Ísland og NATÓ
  • Óðinn skrifar um nýútkomna grænbók í orkumálum.