Frumvarp innviðaráðherra um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er nú statt í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis en frestur til að skila umsögnum við frumvarpið rann út fyrr í mánuðinum. Meðal annars er lagt til að sveitarfélög sem nýta ekki útsvarshlutfall sitt að fullu fái skert framlag.

Alls eru 12 sveitarfélög sem nýta ekki heimild sína til álagningar útsvars að fullu, þar af fjögur á höfuðborgarsvæðinu. Samanlagt nema skerðingar vegna þessa 900 milljónum króna ef miðað er við árið 2024 skv. upplýsingum ráðuneytisins. Þar af nema skerðingar á framlögum til Garðabæjar 380 milljónum, 152 milljónum til Seltjarnarnesbæjar, 110 milljónum til Kópavogs og 82 milljónum til Hafnarfjarðar.

Bæjarstjóri Kópavogsbæjar, bæjarstjóri Garðabæjar, bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar og bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt breytinguna harðlega en hún hvetji vel rekin sveitarfélög til skattahækkana, ella verði þeim refsað, en hækki sveitarfélagið útsvarsprósentu skerðast framlögin ekki.

„Skilaboð með þessum frumvarpsdrögum eru á skjön við það sem núverandi ríkisstjórn hefur lofað - að hækka ekki skatta á heimilin. Verði þessi drög að veruleika er verið að þvinga sveitarfélög í skjóli laga ríkisstjórnarinnar að ráðast í slíkar aðgerðir, þvert á gefin loforð stjórnvalda,“ segir til að mynda í umsögn sem Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, skrifar undir.

„Þau sveitarfélög sem ákveða að gefa íbúum kost á að ráðstafa sjálfum stærri hluta tekna sinna með því að leggja ekki á hæsta leyfilega útsvar geta því orðið fyrir skerðingu framlaga ríkisins til málaflokka á borð við grunnskóla og málefni fatlaðs fólks. Skerðingarákvæði af þessu tagi vinnur gegn því sjálfræði sem sveitarfélög hafa og eiga að geta nýtt sér eftir aðstæðum á hverjum stað,“ segir enn fremur í umsögn sem Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar, skrifar undir.

„Ef frumvarpið fer í gegn óbreytt að þessu leyti er ekki lengur sami hvati fyrir sveitarstjórnir að reyna eftir megni að gera vel í rekstri og umbuna íbúum með lækkun útsvarsprósentu í framhaldi af því. Hvað Seltjarnarnesbæ varðar sérstaklega er ljóst að ef frumvarpið fer í gegn óbreytt að þá stendur bærinn frammi fyrir þeim valkosti að hækka útsvarið í botn eða taka á sig lækkuð framlög úr Jöfnunarsjóði sem hefur verulega neikvæð áhrif á afkomu bæjarsjóðs,“ segir í umsögn sem Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, skrifar undir.

„Þær breytingar sem boðaðar eru í frumvarpinu hafa veruleg fjárhagsleg áhrif á Garðabæ. Eins og fram kemur í gögnum mun breyting á jöfnunarframlögum minnka framlög til sveitarfélagsins um 218 m.kr. Við það leggst skerðing sem ráögerð er í drögum að frumvarpinu vegna útsvarshlutfalls en í tilviki Garðabæjar getur sú skerðing numið um 400 m.kr. Samtals er því gert ráð fyrir að framlög til Garðabæjar skerðist um u.þ.b. 600 m.kr. eða um u.þ.b. 30 þús. kr. á hvern íbúa,“ segir í umsögn sem Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, skrifar undir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast veffréttaútgáfu blaðsins hér.