Hagnaður HB Granda á síðasta ársfjórðungi tæplega þrefaldaðist milli ára og nam 21 milljón evra, tæpum 2,9 milljörðum króna. Sé horft á árið 2018 í heild nam hagnaðurinn 32,2 milljónum evra, tæpum 4,4 milljörðum, og jókst um 30%. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins .

Rekstrartekjur ársins drógust lítillega saman milli ára og námu 211 milljónum evra, og rekstrarhagnaður stóð nánast óbreyttur í 30 milljónum.

Hlutdeild félagsins í hagnaði síleska eignarhaldsfyrirtækisins Deris S.A., sem á í sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækjum, og Grandi á fimmtungshlut í, hækkaði hinsvegar úr 5 milljónum evra í 17, en bróðurpartur hagnaðarins var tilkominn vegna sölu Deris á laxeldisfélaginu Salmones Friousur S.A. Þrátt fyrir rúma tvöföldun greidds tekjuskatts, sem nam tæpum 11 milljónum evra, hækkaði því hagnaður milli ára úr 25 milljónum evra í 32.

Eignir í árslok 2018 námu 667 milljónum evra og hækkuðu um þriðjung milli ára, og eigið fé nam 279 milljónum og hækkaði um 8,7%. Eiginfjárhlutfall var því 41,9% og lækkaði um rétt tæp 10 prósentustig milli ára.

Greidd laun námu 59 milljónum evra og lækkuðu um 4,5% milli ára, en ársverk voru 773 og fækkaði um 8%. Meðallaun námu því 862 þúsund krónum á mánuði og hækkuðu um 3,5% milli ára.

Rúmar 10 milljónir evra voru greiddar í arð árið 2018, eða um 1,4 milljarðar króna, og stjórn félagsins leggur til að í ár verði greiddir rúmir 1,8 milljarðar króna vegna rekstrarársins 2018.

Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar kemur einnig fram að það og dóttur félag þess, Ögurvík ehf., gerðu út 9 fiskiskip í árslok, og að afli skipa á vegum félagsins var 47 þúsund tonn af botnfiski og 120 þúsund tonn af uppsjávarfiski árið 2018.

„Rekstrarafkoma HB Granda var ekki ásættanleg á árinu 2018. Hagnaður fyrirtækisins hefur verið að minnka á síðustu árum vegna styrkingar íslenskrar krónu og hærri veiðigjalda. Á seinni hluta ársins 2018 veiktist íslenska krónan og það styrkir útflutningsfyrirtæki. Árið 1992 fjárfesti HB Grandi í sjávarútvegsfyrirtæki í Síle. Þetta fyrirtæki seldi laxeldisfyrirtæki sitt á síðasta ári og fékk HB Grandi töluverðan hagnað af þeirri sölu og skýrir það að hluta góða afkomu á síðasta ársfjórðungi 2018.“ er haft eftir Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra félagsins í tilkynningunni.