Rekstrarvörur ehf., sölu- og dreifingarfyrirtæki með hreinlætis-, hjúkrunar- og rekstrarvörur, högnuðust um 387 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 400 milljónir árið 2020. Félagið hyggst greiða út 288 milljónir í arð á árinu samanborið við 150 milljónir í fyrra.

Góð afkoma félagsins skýrist af stórum hluta af sölu á hreinlætisvörum í faraldrinum en veltan jókst um 70% og afkoman fimmfaldaðist milli áranna 2019 og 2020.

„Vörusala samstæðunnar dróst lítillega saman á árinu 2021 en hún hafði aukist talsvert á árinu 2020, m.a. vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Stjórn félagsins og framkvæmdastjóri telja að áhrifa Covid-19 á félagið muni gæta áfram en sala á vörum tengdum heimsfaraldrinum muni þó fara minnkandi,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi.

Velta Rekstrarvara, sem er með starfsemi bæði á Íslandi og í Danmörku, nam 4,5 milljörðum króna og framlegð rúmlega 1,7 milljörðum. Rekstrarhagnaður dróst saman úr 556 milljónum í 491 milljón á milli ára. Meðalfjöldi starfsmanna miðað við heilsársstörf var 67 í fyrra og laun og launatengd gjöld námu 827 milljónum.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 2.316 milljónir í lok síðasta árs og eigið fé var 1.393 milljónir. Á árinu greiddi samstæðan upp hluta langtímalána sinna og námu þær 106 milljónum í árslok 2021 samanborið við 216 milljónir árið áður. Félagið er í eigu Kristjáns Einarssonar og Sigríðar Báru Hermannsdóttur.